Færsluflokkur: Bloggar

Adam og eplið

Ræktin og heitur pottur eftir vinnu.  Tók ekki 110% á því - en dútlaði ekki heldur.  Eftir kvöldmat var svo brunað á hótel Nordica á Fjallamyndasýningu Útiveru.  Hún var ágæt.  En ég hélt ekki út allan tímann.  Nennti því bara ekki.

Ég er aðeins byrjaður að velta fyrir mér göngum næsta sumar.  Mig dauðlangar á Hornstrandir og Jökulfirði.  En einnig langar mig til að ganga Laugaveginn aftur.  Svo eru aðrir staðir sem manni langar til að kanna.  Það er fínt að nota veturna til að láta sig dreyma.

Það er búið að rífa ljósanetið sem var utan um jólatréð á Reykjavíkurveginum.  Tréð leit út eins og geilsavirkur kúkur ofurrisaeðlu.  Ferleg ómynd.  Vonandi verður bara einföld sería sett á það.

Það lítur út fyrir að jólin séu á morgun.  Vonandi að maður sofi ekki yfir sig.


Af hverju?

Það var tekið hressilega á því í ræktinni í dag.  Ég fann að vöðvarnir voru bara nokkuð glaði að fá að reyna á sig.  Heiti potturin á eftir toppaði svo herlegheitin.   En það var dálítið erfitt að koma sér af stað.  Vika síðan síðast.  Merkilegt hvað maður er fljótur að verða latur og maltlaus.  En ég vona að ég verði snöggur að komat upp á bragðið aftur.  Á morgun verður það hlaupabretti eða skíðavél eða bara hvoru tveggja.

Núna fer róðurinn að þyngjast í vinnunni.  Áramótaútgáfan er þykkur pakki.  Byrjum væntanlega á herlegheitunum á morgun.   Og veitir ekki af.

Ég ætla að skella mér á Hótel Nordica á miðvikudagskvöldið.  Þar verður myndasýning á vegum Útiveru.  Mæli með að áhugasamir um útiveru og ljósmyndir fjölmenni þangað.


Helgarsprok

Máninn var alveg virkilega sáttur við mótið í Keflavík.  Þetta var víst bara snilldarhelgi.  Hvað getur það annað verið þegar einhver hundruð púka koma saman.  Það verður allt vitlaust og bara skemmtun hjá þeim.

Við vorum mætti suðureftir um klukkan hálf þrjú og vorum viðstödd verðlaunaafhendingar og mótssliti.  Svo var haldið í Hólaskóla, klárað að taka saman og svo brunað til Hafnarfjarðar.  Það er ég hræddur um að kúturinn verði frekar framlágur á morgun.

Ég hlakka til morgundagsins.  Hreyfing eftir vinnu.  Síðasta vika var alveg vonlaus hjá mér.  Var eins og blaut tuska fram eftir viku og það var fyrst í gær sem ég var þokkalegur.  Ég ætla að taka á því á morgun.  Lyfta.  Tími til kominn. 


Vera má að það megi

Það er búið að vera nóg að gera.  James Bond í gærkvöldi.  Snilldarmynd.  Fer á toppinn sem ein besta Bond myndin.  Ég er ekki frá því að Daniel Craig, nýi Bondinn, sé sá besti.  Allavegana í öðru sæti. 

Vorum vöknuð klukkan átta í morgun.  Skunduðum í Reykjanesbæ þar sem Máninn tekur þátt í fótboltamóti um helgina.  Gist og hvað eina.  Við vorum frameftir degi með FH ingum í dag og brunum suðureftir fyrripart dags á morgun.

Þegar við komum til baka ákváðum við að kíkja í Garðheima, skoða ýmislegt jólaskraut.  Það var fínt.  Svo kíktum við á Thors planið í okkar heimabæ, á Jólaþorpið.  Þar var fín stemning. 

Notfærðum okkur megaviku Domínós.  Ég bara viðurkenni að ég nennti ekki að elda.

Morgudagurinn, sunnudagur, verður viðburðaríkur.

Þétt helgi.


Heildarútgáfa

Meðlimir Baggalúts koma með enn einn jólasmellinn fyrir þessi jól, dásemdarlagið um rjúpuna.  En þeir hafa einnig tekið ein helstu  meistaraverk sköpunarsögunnar saman á eina áheyrilega hljómskífu sem öllum er hollt að eignast - og það sem allra fyrst.

Þar kom að því

Upp, upp mín sál og allt mitt geð. 

Jú ég hef skriðið nokkuð vel saman.  Kom undan þessum flensuleiðindum töluvert mikið breyttur.  Ég las nefnilega Draumaland Andra Snæs.  Ég verð að viðurkenna að þessi bók kom nokkuð mikið við mig. 

Ég er einn af þeim sem hefur gufast þetta - ekki haft fyrir því að kíkja undir þá steina sem fólk, eins og Andri Snær, hefur velt við fyrir okkur hin til að kanna betur undir. 

Okey.  Bókin kom út í mars sl. Ég eignaðist hana bara fyrst núna.  Kristín gaf mér hana.  Draumalandið hefur ekki mikið verið á lausu á bókasöfnum, ekki kunni ég við að stela henni, líkt og einn gagnrýnandi lagði til, og ég bara fattaði ekki að kaupa hana sjálfur.  En betra seint en aldrei.

Ég hef alltaf talið mig vera með báðar fætur á jörðinni.  Viljað nýta og njóta landsins og verið sannfærður um að það sé hægt.  Ég er ekki lengur viss.  Ég held að það sé minnsta kosti ekki hægt, miðað við þá stefnu sem tekin hefur verið, og unnið er eftir.  Sú stefna er alls ekki farsæl.

Það má vel vera að það megi finna einhverjar misfellur eða mismæli í bókinni.  Ég veit það ekki.  Hitt er annað mál, ég held að í henni sé mun meira rétt en rangt.  Það hefur að minnsta kosti ekki neinn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að Draumalandið sé bull frá A-Ö.  Það hefur enginn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að helmingurinn af bókinni Draumalandið sé bull og vitleysa.  Það hafa örugglega einhverjir eldheitir virkjunarsinnar stigið fram og sagt að þetta atriði og þessi lína hér, og þetta hér standis bara ekki, sé bara ekki rétt.  Kann meira að segja að vera að þetta fólk hafi rétt fyrir sér.  En hvað með allt hitt sem kemur fram í bókinni?  Er hægt að tína út spörðinn, vaðandi drullu upp fyrir haus?

Ég hef í tvígang komið upp að Kárahnjúkum.  Ég viðurkenni að mér þótti ekki mikið til koma.  Þótti þetta svæði vera frekar þunnur þrettándi.  En ég hef reyndar bara séð svæðið rétt í kringum stífluna.  Ég hef líka séð háspennulínurnar sem skera landið í Fljóts- og Skriðdalnum.  Það fannst mér vægast sagt hryllingur.  En ég hugsaði með mér, það verður alltaf að færa einhverjar fórnir.  En fyrir hverja?

Ég veit að lítið er hægt að gera úr þessu, eða?   Ég bið Guð um að forða okkur frá því að gera önnur eins mistök aftur.


Draumur okkar beggja

Hefur þú lesið Draumalandið?

Hér er mögnuð myndasyrpa eftir Christopher Lund við lag Damien Rice.


Rorrandi skorrandi

Annar dagur í leiðindum. 

Ég svaf frekar lítið síðustu nótt.  Það var á tímabili eins og hausinn væri að springa.  Hann gerði það ekki, sem betur fer.  En það var betra að sitja uppréttur og hnerra eins og vitleysingur en að liggja útaf.  Mér tókst þó að sofna seint og um síðir.  Vaknaði svo um klukkan sjö og vakti betri helminginn datt svo út aftur um hálf átta og rumskaði ekki fyrr rétt fyrir ellefu.

Svo hefur dagurinn farið í það að vafra á netinu, dorma í sófanum, lesa Draumalandið, dorma í rúminu og annað álíka áhugavert.

Ég hafði hugsa mér að setja svona veikindamynd af mér hingað, en gat ekki fengið mig til þess.  Útlitið mitt var fjórfalt verra en vanalega og því gat ég ekki lagt það á nokkurn mann að sjá þessi ósköp.


Smá skyr

Það lá í loftinu alla helgina.  Þurr og aumur háls, vottur af beinverkjum.  Og einhver slumma í manni.  Í gærkvöldi þegar við vorum að skríða upp í rúm var svo farið að renna úr nefinu.  Ég er heima núna með sængina upp undir höku, hendurnar fá að slefa undan henni til að berja lyklaborðið.  Það er kannski eitt gott við þetta alltsaman.  Draumaland Andra Snæs styttir mér stundir.  En á móti legg ég ekki í að fara á æfingu, þannig að í fysta sinn í á annan mánuð dettur út dagur hjá mér.  Árinn.


Það var svo sem...

Jæja, Mýrin mynd ársins.  Maður verður víst að koma sér í bíó og sjá stykkið. 

Og til að býta hausinn af skömminni þá var Ó. Ragnarson kosinn sjónvarpsmaður ársins.   Hvað er í gangi?

Ég er þá bara sammála Víking bróður.  Eddan er bara svo leiðinleg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband