Færsluflokkur: Bloggar

Stækkun álversins í Straumsvík - NEI TAKK

Tíu rök gegn stækkun álversins í Straumsvík

1. Loftmengun
Frábær árangur í baráttunni við loftmengun í Straumsvík síðustu 20 árin verður að engu við stækkun.

2. Sjónmengun
Lóðin eftir stækkun verður jafn breið og hún er löng í dag. Línumannvikri vegna stækkunar á útivistarsvæði Hafnfirðinga og í nágrenni við íbúabyggð eru óásættanleg

3. Mengunarsvæði
Byggingarland okkar Hafnfirðinga er takmarkað. Í framtíðinni þurfum við að fá Straumsvíkursvæðið og 10 ferkílómetra mengunarsvæði álverkssmiðjunnar undir blandaða íbúðabyggð, iðnað, verslun og þjónustu. Með því að stækka álbræðsluna núna eyðileggjum við framtíðartækifæri okkar.

4. Samfélagsmál
Við erum ekki lengur fátækur útgerðarbær, við búum ekki við atvinnuleysi, við eigum ekki ótakmarkað land og við reiknum ekki með að börnin okkar vilji vinna í álbræðslu. Við erfum ekki landið frá foreldrum okkar, við fáum það að láni hjá börnunum okkar

5. Fjármál
Allt byggt land í Hafnarfirði í dag er 12 ferkílómetrar. Við stækkun skuldbindum við 10 ferkílómetra byggingarlands undir mengunarsvæði um ókomna framtíð. Í stækkunarhugmyndunum er ekki gert ráð fyrir krónu til okkar Hafnfirðinga fyrir þessa fórn. Óljós loforð um greiðslur fyrir fasteignagjöld og hafnarnotkun koma ekki í staðin fyrir hana.

6. Atvinnumál
Stækkun álbræðslunnar hefur engin úrslitaáhrif fyrir atvinnulíf í Hafnarfirði. Í dag vinna 230 Hafnfirðingar hjá álverkssmiðjunni . Í Hafnarfirði hefur störfum fjölgað undanfarin 7 ár um 240 störf á ári án þess að álbræðslan í Straumsvík hafi stækkað.

7. Virkjunarmál
Stækkun kallar á virkjun neðri hluta Þjórsár og hefur óafturkræfar afleiðingar fyrir náttúru Íslands.

8. Byggðaþróun
Innan fárra ára verður Straumsvíkursvæðið eitt það verðmætasta á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til staðsetningar. Nágrenni við höfuðborgina og nágrenni við alþjóðaflugvöllinn gerir þetta landssvæði eftirsóknarvert fyrir hátækni- og sprotafyrirtæki. Mengunarsvæðið takmarkar eðlilega byggðaþróun í Hafnarfirði.

9. Ábati fyrir íslenskt samfélag
“Jafnvel þó að Íslendingar kæmust í hóp stærstu álframleiðenda heims og myndu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis” (Ágúst Guðmundsson, Bakkavör, febrúar 2006).

10. Loftslagsbreytingar
Í starfsleyfinu er engin takmörkun á útblæstri gróðurhúsaloftegunda sem valda loftlagsbreytingum sem eru alvarlegasta umhverfisvandamál í heiminum í dag

Af heimasíðu Sólar í Straumi.


Jólin í stuttu máli

Jólin okkar voru góð.  Aðfangadagskvöld var hefðbundið.  Eftir pakka og nokkur þakkarsímtöl röltum við okkur yfir til mömmu.  Sátum og spjölluðum þar í smá stund og stungum okkur svo aftur heim og höfðum það gott.  Í gær, jóladag, sváfum við vel út.  Fórum svo seinnipartinn í hangikjötið á Stokkseyri.  Það var gott. 

Í dag var annaníjólumganga Þórólfs.  Helgafellið líkt og svo oft áður.  Notaði tækifærið og prufaði nýja GPS tækið sem mín elskuleg var svo góð að gefa mér í jólaogafmælisgjöf.  Var reyndar ekki búinn að setja kortið í tækið, en engu að síður varð ég að reyna græjuna.  Ekkert smá ánægður með stykkið.  Eftir gönguna var farið til mömmu á Hringbrautina.  Gengum í kring um jólatré og snarbilaður jólasveinn kíkti í heimsókn.  Spurning af hvaða deild hann hafi stungið af.

Vinna á morgun.  Mikið að gera.


Jólakveðja


Kæru vinir, mínar bestu óskir um gleðileg jól.
Vona að þið hafið það sem allra
best yfir hátíðarnar.


Góður dagur

Þorláksmessa er einn af þessum dögum sem geta verið skrítinir og skemmtilegir en líka undirlagðir af stressi og leiðindum.  Dagurinn í dag var frábær.  Ekki til stress né læti í okkur Sunnuvegsbúum.  Dóluðum okkur fram eftir degi við tiltekt og snurfuss, kíktum aðeins niður í bæ og til mömmu.  Allt í göngufæri.  Svo seinnipartinn var strikið tekið til Regínu frænku í árlegt Þorláksmessuboð hennar.  Eins og vanalega var það dásamlegt.  Takk fyrir okkur.  Sit núna og sýð hangikjötið, grauturinn kominn út í kælingu og karamellusósan klár í ísskápnum. 

Munum eftir að gefa fuglunum brauðbita.


Heimavið í vondu veðri

Kemur maður ekki bara til með að halda sig heimavið.  Jólakveðjur á Rás 1.  Hangikjöt í einum potti og jólagrauturinn í öðrum.  Rauðkálið tilbúið.  Það er bara allt að gera sig.

Jólahugvekjan og stundin sem við VÍS-arar áttum saman eftir vinnu í gær var dásamleg.  Ég naut þess að hlusta á kórinn syngja, upplestur jólaguðspjallsins og hugvegkju sr. Þorvaldar Víðissonar. 

Ekki margorður.


Meðmæli með íslenskri stafafuru

Jólatréð komið í fótinn og stendur fallegt á stofugólfinu.  Íslensk stafafura, líkt og hefur verið hjá okkur síðustu ár.  Furan er okkar tré.  Reyndar hef ég stungið upp á þvi að við fengjum okkur gerfitré, en slíkar pælingar hafa verði kæfðar í fæðingu.  Þó tréð sé komið upp, skreytum við það ekki fyrr en á Þorláksmessukvöldi. 

Meira veðrið sem gekk yfir í gær.  Rafmagninu sló út í Bónus þegar ég var þar og myndaðist bara kósí stemning, eins furðulegt og það hljómar.  Það færðist ró  yfir allt rétt á meðan.  Í annarri búð sem ég fór í er einfalt þak og glumdi ógurlega í búðinni þegar mikil hagglél gengu yfir.  Varla hægt að tala saman þar inni.

Mæli með jólalagapælingum Guðmundar Steingrímssonar.  Smellhittir í mark.


Gerist ekki styttri

Sólin kom upp klukkan 11:22 og sest klukkan 15:29.  Stuttur dagur.

Allt er þetta frekar aumt

Ég á það til að bíta eitthvað í mig og það fast.  Sem dæmi má nefna að Ingvar Helgason hf. hefur auglýst, núna fyrir jólin, einhver bílatilboð sem er svo sem allt í lagi, en klikkja svo út með því að misþyrma laginu, Göngum við í kring um.  Miklar eynaskemmdir.  Ég hef heitið því að kaupa ekki bíl hjá þeim.  Enda held ég að ég geti vel staðið við það - við erum ekki að fara í bílabissnes á næstunni.  Eins held ég áfram andstöðu gegn KFC.  Skelfingar ómeti, og vond þjónusta þar á bæ.

Umræða um Kompás þáttinn tröllríður öllu um þessar mundir.  Ömurlegt ef satt er að forstöðumaðurinn hafi notfært sér traust skjólstæðinga sinna. 

Það eru nokkrar spurningar sem vakna.  Er rétt hjá umsjónarmönnum þáttarins að greiða fyrir heimildirnar?  Það finnst mér rýra dálítið trúverðuleika þeirra.  Einnig finnst mér frekar furðulegt, já og aum kynningarbrella, hvernig Stöð 2 auglýsti upp, setti hann seint á dagskrá og ítrekuðu að atriði í honum væru gróf og ekki ætluð  börnum.  Daginn eftir var hægt að horfa hann á visir.is.  Og til að klára þetta í eitt skipti fyrir öll, af hverju var þátturinn sýndur núna, viku fyrir jól.  Hefði ekki verið hægt að bíða í tvær til þrjár vikur?  Það tók víst þrjá mánuði að gera hann.  Það hefði mátt nota tímann til að vinna hann enn betur, og slípa það sem miður fór?

Ég endurtek - ef það er rétt sem fram kom í þættinum er það ömurlegt - er samt ekki réttara að kæra þetta og koma í réttan farveg.

Og til hamingju Ísland.  Dýrasta land Evrópu.  Húrra, húrra, húrra, HÚRRAAAA. Hvernig eru launin  okkar í samanburði við aðrar þjóðir?  Ég held að myndin skekkist enn frekar þegar/ef það er skoðað í samhengi við dýrtíðina.


Baráttan verður alltaf harðari

antikfc

Það þýðir ekkert að hætta þessu núna.


Innrás í gær

Ég skil ekkert í þessu.  Í gær fékk ég um 130 heimsóknir.  Furðulegt. 

Við Máni skelltum okkur í Kringluskrattann í gærkvöldi.  Röltum okkur um og skoðuðum og spjölluðum.  Þetta var bara ágætt.  Ætlum að skoppast eitthvað í kvöld, binda síðustu enda.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband