Færsluflokkur: Bloggar

Að gefnu tilefni...

Birti ég þetta aftur ... færsla frá síðastliðnu hausti.

--- 

Jú ég hef skriðið nokkuð vel saman.  Kom undan þessum flensuleiðindum töluvert mikið breyttur.  Ég las nefnilega Draumaland Andra Snæs.  Ég verð að viðurkenna að þessi bók kom nokkuð mikið við mig. 

Ég er einn af þeim sem hefur gufast þetta - ekki haft fyrir því að kíkja undir þá steina sem fólk, eins og Andri Snær, hefur velt við fyrir okkur hin til að kanna betur undir. 

Okey.  Bókin kom út í mars sl. Ég eignaðist hana bara fyrst núna (nóvember 2006).  Kristín gaf mér hana.  Draumalandið hefur ekki mikið verið á lausu á bókasöfnum, ekki kunni ég við að stela henni, líkt og einn gagnrýnandi lagði til, og ég bara fattaði ekki að kaupa hana sjálfur.  En betra seint en aldrei.

Ég hef alltaf talið mig vera með báðar fætur á jörðinni.  Viljað nýta og njóta landsins og verið sannfærður um að það sé hægt.  Ég er ekki lengur viss.  Ég held að það sé minnsta kosti ekki hægt, miðað við þá stefnu sem tekin hefur verið, og unnið er eftir.  Sú stefna er alls ekki farsæl.

Það má vel vera að það megi finna einhverjar misfellur eða mismæli í bókinni.  Ég veit það ekki.  Hitt er annað mál, ég held að í henni sé mun meira rétt en rangt.  Það hefur að minnsta kosti ekki neinn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að Draumalandið sé bull frá A-Ö.  Það hefur enginn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að helmingurinn af bókinni Draumalandið sé bull og vitleysa.  Það hafa örugglega einhverjir eldheitir virkjunarsinnar stigið fram og sagt að þetta atriði og þessi lína hér, og þetta hér standis bara ekki, sé bara ekki rétt.  Kann meira að segja að vera að þetta fólk hafi rétt fyrir sér.  En hvað með allt hitt sem kemur fram í bókinni?  Er hægt að tína út spörðinn, vaðandi drullu upp fyrir haus?

Ég hef í tvígang komið upp að Kárahnjúkum.  Ég viðurkenni að mér þótti ekki mikið til koma.  Þótti þetta svæði vera frekar þunnur þrettándi.  En ég hef reyndar bara séð svæðið rétt í kringum stífluna.  Ég hef líka séð háspennulínurnar sem skera landið í Fljóts- og Skriðdalnum.  Það fannst mér vægast sagt hryllingur.  En ég hugsaði með mér, það verður alltaf að færa einhverjar fórnir.  En fyrir hverja?

Ég veit að lítið er hægt að gera úr þessu, eða?   Ég bið Guð um að forða okkur frá því að gera önnur eins mistök aftur.


Slík mistök ... er dýrt að leiðrétta ... eftir á

Enn á ný sæki ég efni í heimasíðu Sólar í Straumi.  Enda ekki annað hægt en að halda áfram baráttunni.   

Eftirfarandi mátti lesa á Vísi.is fyrir nokkrum dögum:

Árið 1995 hafði enn ekki verið ráðist í byggingu Vallarhverfis en húsin á Holtinu voru á teikniborðinu.

Forveri Rannveigar Rist í Straumsvík, Christian Roth, sendi bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði formlega ósk einungis fyrir nokkrum árum eða árið 1995 þar sem hann mælti eindreigið með að ný íbúðabyggð myndi ekki rísa við álverið. Í bréfi hans segir:

“Í þessu sambandi viljum við benda á að stækkun ÍSAL þýðir 60% meiri losun á brennisteinsdíoxíði, koltvísýringi og flúorsýru frá álbræðslunni, og aukningu á hávaða og umferð. Jafnvel þótt útblásturinn skaði ekki umhverfið, eins og staðfest er í starfsleyfinu, sjáum við fram á hugsanlega árekstra ef íbúðabyggðin verður færð austar. Slík mistök hafa verið gerð víða í Evrópu og það er dýrt að leiðrétta þau eftir á. Til að koma í veg fyrir umræður og átök í framtíðinni mælir ÍSAL því eindregið með að ekki verði byggð ný hús nær verksmiðjunni en þau sem þegar eru í byggingu.”
Undir bréfið skrifar Christian Roth, þáverandi forstjóri ISAL og Bjarnar Ingimarsson, þáverandi fjármálastjóri. Sex dögum síðar fær Hafnarfjarðarbær bréf frá Finni Ingólfssyni, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þar sem ráðuneytið telur ábendingu Ísal mjög eðlilega og telur að bærinn eigi að taka þetta mál til nánari athugunar.


Urr

Stutt í laugardaginn.  Stór dagur. 


Náðist ekki í upplýsingafulltrúa Alcan í dag...

...skv. fréttum Sjónvarpsins.  Það átti að spyrja hann nánar út í það hvers vegna það vantaði ýmislegt inn á þær tölvugerðu myndir sem Alcan kýs að sýna okkur.  Rafmagnslínur, strompa og þessháttar tittlingaskít.  Tekur því ekki að minnast á það.


Stærra álver - vextir áfram háir

Í frétt á ruv.is segir meðal annars:

"Verði stækkunin samþykkt megi búast við áframhaldandi verðbólgu, háum stýrivöxtum og viðvarandi viðskiptahalla á meðan á framkvæmdunum stendur."

Hér er fréttin öll.

Er maður ekki að verða pólitískur?


Ísland, ég elska þig

Baggalútar eru hreinir og tærir snillingar.  Hér er enn ein sönnun þess.  Njótið.

Við Kárahnjúka í maíbyrjun 2008

Við Kárahnjúka í maíbyrjun 2008

Á vorin þegar lifnar leir
laus við stífluhlekki
og jökulkaldur þungur þeyr
þykkum feykir mekki

yfir Hérað æðir ský
eðjan litar strauma
þá kemur loks í ljós á ný
landið, kennt við drauma.

Höfundur, Gísli Ásgeirsson


Það er allt að fara til helvítis í Hafnarfirði...

... og fer þangað mjög hratt ef álverið fær ekki að stækka. Það er ekkert annað í stöðunni. Hafnfirðingar ættu strax að byrja að undirbúa flutninga til vesturheims.  Hafnarfjörður fer í eyði eftir 7-10 ár. Það er ekki til fólk í firðinum sem hefur kraft og áræðni. Nýsköpun er ekki til í bænum. Það eina sem hægt er að gera er að vinna í hjá álverinu, eða það sem er næst best, vinna hjá fyrirtæki sem á allt undir verksmiðjunni. Ég get ekki skilið annað af málflutningi Hags Hafnarfjarðar og Framkvæmdastjóra SA. Við förum til fjandans, beina leið. Hratt og örugglega ef ekki verður af stækkun.

Nei, fjandakornið, svona slæmt er þetta ekki. Í Hafnarfirði býr fólk með hugmyndir og kraft sem væri meira en tilbúið til að fara af stað og gera hlutina ef aðstæður og stuðningur væru fyrir hendi. Í Hafnarfirði og reyndar höfðuborgarsvæðinu öllu, búa frumkvöðlar sem eru tilbúnir þegar færi gefast og aðstæður bjóða upp á slíkt.  Þær aðstæður eru fyrir hendi núna. Í stað þess að leggja milljarða í virkjanir og niðurgreiðslu á raforku til álvera, væri leikur einn að veita fjármagni í nýsköpun og til að koma nýjum hugmyndum á koppinn.

Á fundi í Bæjarbíói í gær, fimmtudag, fór Vilhjálmur Egilsson mikinn.  Hann mærði Alkan í bak og fyrir og sagði það hreint út að Hafnarfjörður væri ekki það sem hann er í dag ef ekki væri fyrir álverið. Dálítið til í því en í dag er Hafnarfjörður svo miklu meira og býr yfir svo miklu, miklu meira.  Reyndar varð mér um og ó þegar hann fór að boða fleiri álver, í Húsavík og Helguvík.  Virkja meira og virkja ennþá meira.  Ég held að mörgum á fundinum hafi blöskrað.  Framfarir liggja í öðru en slíkum blautum draumum.

Sækkun álvers er ekki nein lausn, heldur mætti frekar líkja því við að pissa í skóinn sinn. Kannski hlýtt og notalegt í smá stund, en kalt og blautt til lengri tíma.


Jæja, þá er það byrjað

Áróður Alcan er kominn á fullt.  Öllu til tjaldað.  Samtök Atvinnulífsins fella stóra dóma um hvað Hafnfirðingar munu missa af og eitt það ömurlegasta við þetta allt er hvernig hlutlausri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands er snúið, hún teygð og lítið gert úr henni.  Það er dapurt að horfa upp á ofsagræðgi valta yfir það sem stendur svart á hvítu.  Hlutlausta gangrýni. 

Á fundi sem ég var á í gærkvöldi steig blaðafulltrúi Alcan í pontu og smelti því framan í fundarmenn að skýrslan væri bull.  Fólkið í Hafnarfirði færi með rugl.  Meira að segja þvertók hann fyrir að álverið yrði þrisvar sinnum stærra en það er er í dag.  480000/160000=3. 

Mér er óglatt.

Örlítil viðbót, frétt á Rúv.is

Mér er meira óglatt.


Davíð Þór Jónsson - Bakþankar 18. mars 2007

FAGRI HAFNARFJÖRÐUR?
Senn taka Hafnfirðingar afdrifaríkustu ákvörðunina sem tekin hefur verið um framtíð bæjarins síðan Hansakaupmenn réðu þar ríkjum. Spurt er hvort bæjarbúar vilji að stærsta álbræðsla Evrópu rísi í hjarta Hafnarfjarðar.

Í raun er undarlegt að spyrja þurfi að að þessu. Ef af fyrirhugaðri stækkun verður mun álverið í Straumsvík nefnilega ausa um 70 tonnum af svifryki á ári yfir íbúabyggð í bænum. Losun gróðurhúsalofttegunda mun rúmlega tvöfaldast og fyrirhuguðu útivistarsvæði verður fórnað undir stærstu línumannvirki á Íslandi með 36 metra háum möstrum. Dettur einhverjum virkilega í hug að það sé hagur Hafnarfjarðar?

Það hefur verið dapurlegt að sjá hvernig útlenskir auðkýfingar með fulla vasa fjár og íslenskt leiguþý þeirra hafa dembt bláköldum lygum og hræðsluáróðri yfir Hafnfirðinga til að fá þá til að makka rétt og lúta hagsmunum fyrirtækisins. Sýndar eru fallegar myndir af ímynduðu álveri þar sem "óvart" vantar allar raflínur, skorsteina jafnháa Hallgrímskirkju og ýmislegt annað sem þarf til að álbræðslan yrði starfhæf. Jafnvel eru sýndar myndir af litlu álveri í Noregi sem er jafnlíkt fyrirhugaðri stóriðju í Straumsvík og lambasparð er fjóshaugi. Af hverju ætti sá sem hefur sannleikann sín megin að ljúga?

Sagt er að verði stækkunin ekki samþykkt verði álverinu lokað því núverandi stærð sé svo óhagkvæm í rekstri. Hún er þó ekki óhagkvæmari en svo að aðeins þrjú þeirra 22 álvera sem ALCAN starfrækir nú eru stærri. Af hverju ætti álverið í Straumsvík að vera lagt niður? Af því að það er svo þreytandi að græða bara fjóra milljarða á því á hverju ári? Enginn hefur nefnt að loka eigi einhverju hinna álveranna.

Og þótt lokað yrði, bættur sé skaðinn. Nýlega misstu um 600 manns vinnuna við brotthvarf Bandaríkjahers. Samt lagðist byggð á Suðurnesjum ekki af eins og hótað hafði verið. Íslenskt atvinnulíf þyrstir í vinnuafl. Vinnufær Íslendingur er ekki vandamál, hann er tækifæri. Það er ALCAN sem þarf Hafnarfjörð, ekki öfugt – sama hve mörghundruð milljónum fyrirtækið ver til þeirrar blekkingar.

Látum ekki ljúga vitið úr hausnum á okkur. Látum ekki stjórnast af innihaldslausum hótunum og hræða okkur til undirgefni.

Seljum ekki erlendum auðhring Hafnarfjörð barna okkar.

Þessi pistill birtist á baksíðu Fréttablaðsins 18. mars 2007.
Ég tók mé það bessaleyfi að birta hann hér, ég vona að Davíð fyrirgefi mér það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband