Færsluflokkur: Bloggar

Endanlegur úrskurður

Ég ætlaði að hella úr skálum reiði minnar í garð moggabloggsins vegna þeirrar vitleysu þeirra að girða fyrir að Már Högnason geti tjáð sig um fréttir líðandi stundar.  Þeir voru víst búnir að opna fyrir hann aftur og nú bloggar hann sem aldrei fyrr.  Þrefalt húrra fyrir því ..... húrra....húrra.... húrra.

Þá ætla ég að fárast yfir því að Egill Helgason hafi verið keyptur dýrum dómi yfir til RÚV.  Mér finnst að þeim aurum væri betur borgið í eitthvað annað, yfirbjóða frekar The Simpson.  Egill hefur verið með þætti sína í sjónvarpi í átta ár.  Ég var mest glaður þegar hann flutti yfir á stöð tvö, því þá var eiginlega ekki möguleiki á að ég myndi sjá/heyra í honum.  En nei, svo bregðast krosstré sem önnur.

Æ... hvað er maður svo sem að tuða yfir þessum tittlingaskít....


Sjúmm, vúmm

Máni fór í eyrnalagfæringu í dag.  Árangurinn sjáum við eftir 10 daga eða svo.  Hann var furðu brattur eftir svæfinguna og var að drepast úr hungri.  Bað um Sómasamloku með kjúkling og eggjum.  Skolaði henni svo niður með einni malt.  Við tveir tókum því svo rólega fram eftir degi.

Við ætlum að horfa á vídeó í kvöld og borða slikkerí.

 


Dúra lúra lúra

Ég þoli ekki Bykoauglýsingarnar.  Fá mig til að vilja alls ekki versla þar.


Nákvæmlega eftir bókinni

Það er búið að vera þokkalega vorlegt í dag.  Það er spáð glimrandi vori þessa vikuna.  Ætli sumarið byrji ekki fyrir alvöru í þeirri næstu.  Eða kannski ekki fyrr en eftir sautjánda.

Sól, logn og hiti 25-30°C...

Einhversstaðar í mið evrópu.....

....miðað við spána á veður.is fyrir okkar slóðir þá stefnir í mögulegt þunglindi næstu viku.


Maður bítur hund

Jú vissulega er það frétt ef maður bítur hund.  Það er meira að segja meiri frétt en ef hundur bítur mann, sem er í sjálfu sér frétt líka en ekki jafn mikil.

Á forsíðu fréttablaðsins í gær, laugardag, var mynd af konu standandi fyrir utan bar reykjandi.  Textinn við myndina var - Þessi blómarós er ein þúsunda landsmanna sem þurfa að sætta sig við að standa úti í roki og rigningu ef þá langar til að fá sér smók. -jú, vissulega er það frétt að algjört reykingabann á veitinga og skemmtistöðum sé loks orðið að veruleika, en mér finnst lítið fara fyrir því að meirihluti þjóðarinnar reykir ekki og fagnar þessu.  Eins held ég að flest allir veitingamenn líti jákvætt á þetta nema kannski Kormákur og Skjöldur en þeir eru dregnir fram í flestum fjölmiðlum til að segja álit sitt.  Þar segja þeir frá því hvað það hafi nú verið komið illa fram við þá og hve lítinn tíma þeir hafi fengið til að undirbúa sig.  Þeir höfðu eitt ár til að undirbúa sig.  Ég er ekki viss um að eitt ár til viðbótar hefði komið sér nokkuð betur fyrir þá.

Það eru mörg lönd að taka þetta upp að banna reykingar á veitinga og skemmtistöðum um þessar mundir og önnur lönd hafa nú þegar komið þessu banni á.  Þetta er gott mál.  Aðstæður hér á landi eru ekkert verri en annarsstaðar.  Ef vilji er fyrir hendi þá er allt hægt.


Urrandi stemning

Mér finnst LU alveg hreint ágæti kex.  En mér finnst LU auglýsingarnar ömurlegar.  Ég trúi ekki að nokkrar konur hagi sér eitthvað í líkingu við þann hóp kvenna sem sýndur er í auglýsingunni, hópast saman fyrir framan sjónvarp til horfa á kynningu á "nýjum LU leik". 

Ég fór í rólegan hjólatúr fyrripartinn í dag.  Ákvað að skoða Hafnarfjörð almennilega.  Þrátt fyrir að hafa flutt hingað fyrst árið 1989, eru þó nokkrar götur sem ég hef ekki enn skoðað.  Ég gerði bragabót á því í dag.  Þræddi mikið af götum sem ég hafði aldrei skoðað fyrr.  Endaði svo á léttum hring út á Álftanes og heim aftur.  Þetta voru einhverjir 20 kílómetrar, samkvæmt Garmin, og klukkutími og korter.  Mér var sagt frá skemmtilegri áskorun.  Er að melta henni fyrir með mér.

Kristín og Máni koma heim á morgun.  Það verður frábært.


Minn tími

Ég hef komist að því að auglýsingar, alla vegana sumar, virka bara ekki baun í bala á mig.  Um daginn ákváðum ég og systir að heimsækja Húsasmiðjuna í Skútuvogi eftir vinnu.  Þar sem ég var á hjóli og ætlaði að koma mér heim fyrst vildi ég kanna hvað væri lengi opið, hvort þetta yrði eitthvað stress hjá okkur.  Nú, á heimasíðunni kemur fram að að það sé opið til klukkan 21 öll kvöld.  Um leið og ég sá það rifjaðist það upp fyrir gospelauglýsingin "nýr tími".  Já alveg rétt.  Ég er nú svo sem ekki einn um að taka illa eftir auglýsingunni, því þegar við vorum í búðinni heyrði ég afgreiðslumann svara í símann og segja að, jú það væri opið til níu.  Spælandi að eyða skrílljónum í auglýsingu sem virkar ekki. 

Ég ætti kannski að segja, spælandi hvað ég tek illa eftir...

Ég nennti ekki að hjóla í vinnuna í morgun.  Vaknaði klukkan hálf sjö, leit út og skreið uppí aftur.  Steinsofnaði og svaf næstum yfir mig.   Jæja, hjólaði tvo daga af fjórum.  Stefni á að minnst kosti fjóra af fimm í næstu viku.


Og það var sumar aftur í dag

Ég hef fundið nýtt hlutverk fyrir buffið mitt.  Fyrir þau sem ekki vita þá er buff einhverskonar sokkur, opinn í báða enda og passar á höfðu fólks.  Fjallafólk notar þetta óspart, sem húfu, skuplu og hvað sem er.  Maður er sérlegur töffari ef maður er með buff á hausnum.  Þessi flík er einnig þekkt sem Had.  Ef þið vitið ekki enn hver þessi flík er þá má benda á að krakkar eru mikið með þetta á hausnum, í dag eru krakkabuffin með myndir af íþróttaálfinum og Sollu stirðu.  Nú.  Nýja hlutverk buffsins míns er augnleppar.  Nú þegar daginn er tekið að lengja og hann hefst alltaf fyrr og fyrr varð ég að finna upp á einhverju, því herbergið er uppljómað af sólinni fyrir allar aldir.  Ekki alveg það skemmtilegasta þegar manni langar til að sofa aðeins lengur.  Eitthvað varð til bragðs að taka.  Datt mér þá í hug að bregða buffinu fyrir augun og athuga hvort það gerði eitthvað gagn.  Ég sofnaði fljótt og svaf sem engill til klukkna níu.  Í gærkvöldi skellti ég því buffinu fyrir augun og svaf eins og rotaður fram eftir morgni.

Ég gekk á Helgafell.  Ætlaði mér góðan tíma í það.  Ég var rétt um 40 mínútur upp á topp frá bílastæðinu.  Ekkert a flýta mér.  Á toppnum tók á móti mér fjölskylda með geltandi hund á móti mér.  Þau voru að gæða sér á nestinu og tíkin vildi passa upp á sitt fólk.  Ég ætlaði mér að ganga þá aðeins yfir á fellið áður en ég kvittaði fyrir komunni í gestabókina, en það endaði með því að ég gekk niður hinum megin og gekk svo fyrir fellið.  Þar sem ég var djúpt þenkjandi og ekki alveg við hugann við það sem ég var að gera, munaði engu að ég rölti mér aftur upp.  Áttaði mig á því að ekki var allt með felldu þegar ég mætti hundafjölskyldunni á niðurleið.  Tíkarskömmin urraði á mig og vakti mig upp frá doðanum.  Já, einmitt.

Nú eftir þessa hressilegu göngu, sem tók rúma tvo tíma, brunaði ég aftur í Hafnarfjörðinn og skellti mér í Suðurbæjarlaugina.  Lá í heitapottinum í góðan tíma og mýkti upp stirða vöðva í lærum og kálfum.  Nú er maður albúinn að hjóla í vinnuna í fyrramálið.

Þetta er búið að vera fínasta helgi.


Já svoleiðis nokk

Í dag glöddust gumar og sprundir.  Sumarið var alltumleikis og ekki annað hægt en að njóta þess í botn. 

Það fór lítið fyrir fjallgöngu hjá mér en þess í stað var hjólað.  Ég lagði af stað um klukkan þrjú, eftir að Bogga systir og Týri höfðu kíkt í kaffi til mín, sem við drukkum úti.  Ég var ekki alveg viss hvert mig langaði að fara en svo var bara stokkið af stað.  Renndi sem leið lá í gegnum Garðabæ og Kópavog til Reykjavíkur.  Strikið tekið á Sæbrautina og svo var ströndin þrædd aftur til Hafnarfjarðar með ýmsum útúrdúrum og krókum.  Þetta urðu eitthvað um fimmtíu kílómetrar og tæpir þrír tímar.

Á morgun ætla ég að ganga á Helgafellið.  Það klikkar ekki. 

Ég er orðinn mjög spenntur fyrir Glerárdalshringnum.  Þolið hefur aldrei verið betra og heilt á litið hef ég sjaldan eða aldrei verið í eins góðu gönguformi og nú. 

Svo styttist í dásemd allra dásemda, Hornstrandir, en við eigum reyndar eftir að ákveða endanlega hvar við göngum.  Ég hef verið að lesa Hornstrendingabók Þorleifs Bjarnasonar.  Sú bók lýsir vel hve lífsbarátta íbúa svæðisins hefur verið hörð og erfið.

Ég vona að það verði sumar líka á morgun...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband