Færsluflokkur: Bloggar

Sólarsamba

Höfum rolast og haft það gott í dag.  Enda ekki annað hægt, sól, blíða og algjört sumar.  Lítum út eins og bleikir fílar eftir allt sólbaðið.  Dásamlegt.  Höldum þessu áfram.


Svona var það...

jæja.  maður er svona hægt og rólega að skríða saman.

Þegar við komum ofan af fjöllum og nánast búin að ganga lappirnar af okkur komst fátt annað að hjá okkur en heitur pottur og rúm.  Við brunuðum inn að Hömrum og náðum í Vignir, sem var nokkrum tímum á undan okkur til byggða og náði því að leggja sig dálítið, ásamt því að kippa með okkur sunddótinu, hreinum fötum og öðru smálegu.  Svo var strikið tekið í laugina.  Þar sem við reyndum eftir fremsta megni að teygja á mjög aumum vöðvum sem voru byrjaðir að stirðna upp.  Eftir um hálftíma pottasull höskuðum við okkur uppúr og komum okkur heim til Sigga og Sigþóru þar sem við fengum höfðinglegustu móttökur sem hægt er að hugsa sér.  Þar var boðið upp á bakkelsi og það sem heillaði meira... mjúkt og gott rúm til að leggjast í....  Held að við höfum verið meðvitundarlaus áður en hausinn snerti koddann.  Þá var klukkan um 13:30 og við búin að vera vakandi í um 31 tíma.

Við sváfum til klukkan sex en þá rifum við okkur á lappir, enda indæll matarilmur í lofti.  Var kjarngóð og matarmikil gúllassúpa borin á borð og áttum við frábært kvöld með húsráðendum þeim Sigga og Sigþóru ásamt Júlíu og Guðbjörgu, formanni Þórólfs.  Máni kom svo til okkar um kvöldið eftir að hafa verið með vini sínum og skólafélaga frá því að N1 mótið kláraðist deginum áður.  Við fórum svo inn að Hömrum í Tjallann okkar og sváfum vært til morguns.

Við vöknuðum um klukkan átta á mánudagsmorgninum brunuðum inn á Akureyri í Munkann þar sem okkar beið morgunmatur.  Svo var strikið tekið niður á bryggju og út á sjó, því Capt. Siggi bauð okkur á sjóstöng á Haffara.  Það var siglt út á Eyjafjörðinn og rennt fyrir fiski.  Fengum fínan afla og skemmtum okkur stórvel.  Við komum til með að gera þetta aftur.

Seinnipart dagsins var svo hefðbundinn rúntur í Jólahúsið, þangað höfum við farið árlega og oftast bætist eitthvað smáræði við í safnið okkar. 

Tókum svo saman Tjalla þurran og fínan og lögðum í'ann einhverstaðar í kring um fimmleitið.  Stoppuðum á mörgum sjoppum á leiðinni til að hengja upp plaggöt og skilja eftir bæklinga fyrir sjóstangaútgerðina.  Vorum svo loks heima hjá okkur um klukkan hálf tólf, eða svo.

Frábær helgi að baki....  Við erum hetjur!


16x27

Bara rétt til að láta vita að ég er á lífi.  Við fórum allan Glerárdalshringinn.... en reyndar ekki á alla tindana og voru líka örlítið lengur en tuttutuogfjóratíma.... enduðum á að taka sextán tinda á tuttugu og sjö tímum.  Erum samt bara nokkuð góð með okkur.  Eftir Stóra Stall var kominn mikill lurkur í mörg okkar svo að ákveðið var að taka stefnuna niður í Glerárdalinn.  Og eftir 27 tíma og rúma 45 kílómetra komum við á endastað eftir mikið, langt og skemmtilegt ævintýri.  Hund þreytt.

IMG_5851

Hver veit nema maður leggi aðra eins geðveiki aftur... Hver veit...  Nú er rétt rúm vika þar til við verðum í annarri göngu á Hornströndum, nánar tiltekið Jökulfjörðum.  Formaðurinn búinn að setja sig í samband við Jónas í Æðey þannig að siglingin er klár.  Ég hlakka til. 


Styttist og styttist

Jæja, nú styttist í Glerárdalshringinn, 24x24.  Það er ekki laust við það að sé smá spenningur í loftinu, enda er það dálítið að ætla að ganga í 24 tíma, 50 kílómetra og um 4000 metra hækkun.  Þrátt fyrir að hjóla rúma 20 kílómetra að minnsta kosti þrisvar í viku og ganga á Esju og Helgafell annað slagið.  Birgja sig upp af ýmsum vítamínum steinefnum, omega 3 og lýsi.  Þá er maður ekki viss hvort maður sé tilbúinn.  Hvenær er maður svo sem til í svona vitleysu.  Veit það ekki.  Við leggjum alla vegana af stað með það fyrir augum að klára dæmið.   Annað kemur ekki til greina.  Þetta verður alveg magnað.


Ofurfallegt sumar

Þá styttist í N1 mótið.  Við komum til með að bruna norður næsta fimmtudag.  Máni fer með rútu ásamt liðunum á degi fyrr.  Spenningurinn eykst hægt en örugglega.  Enda ekki nema von.  Þetta er hápunktur sumarsins,  fótboltalega að minnsta kosti.

Við vorum sérlega heppinn í gær.  Gísli og Tobba buðu okkur í mat og sjálfum Rúdolf var skellt á grillið.  Mikið lifandi, skelfing og óskaplega var hann góður.  Það munaði minnstu að ég æti á mig gat.  Hélt þó í við mig.  Svona fyrir kurteisissakir.  En það munaði ekki miklu.

Ljúf helgi framundan.  Skildi þó ekki vera að maður að eitthvað yrði lagt undir fót.


Smásvonavitleysa

Ég tek léttan bloggrúnt annað slagið.  Kíki þá á þau "heitu" hjá moggabloggi og á vísisblogginu.  Ég hef alltaf gaman gaman að því þegar ofurbloggararnir láta vita að þeir hafi nú verið á undan með hina og þessa frétt eða upplýsingar.  Svo vilja þeir náttúrulega láta vitna í sig í fréttinni.....

Steingrímur Ólafsson var duglegur við þetta á sínum tíma en ætli JAX sé ekki aðalskúbbarinn í dag.  Það er líka gott þegar hann lætur vita að því þegar fréttir birtast að hann hafi nú verið með þetta á sínu bloggi einhverju fyrr.  Hann vill náttúrlega fá kreditið.... skárra væri það nú.


Aravísur

Það var ýmislegt gert um helgina.  Upphaflega stóð til að halda almennilega afmælisveislu fyrir Mána en þar sem margir af hans vinum eru í ferðalögum var því frestað.  Þess í stað rúntuðum við austur eftir landinu með nesti í poka.  Fórum alla leið austur að Seljalandsfossi og gengum bak við hann.  Það höfum við ætlað að gera í mörg ár... loksins varð af því.

IMG_5716a

Eftir nestisát og afslöppun ákváðum við að slá tvær flugur í einu höggi.  Renna á Flúðir í stutt kaffistopp hjá Steinu og Co. og jafnvel hitta á Hlyn bróðir sem ætlaði  kannski að vera þar skotturnar sínar.

Þetta fór náttúrulega allt öðruvísi.  Við fórum þaðan fimm eða sex tímum síðar, Mánalaus, en hann varð eftir hjá frændum sínum.  Hlynur var svo að berjast við tjald og rok á Laugarási.

Í dag brunaði Kristín austur að sækja hann á meðan ákvað ég að taka hjólhestinn fram og skella á skeið.  Eftir smá rennirí fram og til baka um fjörðinn var stefnan tekin upp að Hvaleyrarvatni.  Brunaði þangað í góðum fíling og fór hratt yfir.  Það var töluvert af fólki við vatnið og mikið fjör.  Ég renndi að eins lengra, eða þar sem Þytur, flugmótelfélagið er með aðstöðu.  Horfði þar á netta flugsýningu.  Þegar ég var svo rétt nýlagður af stað aftur til baka sprakk á fáknum.  ég mátti gjöra svo vel og stíga af baki og leiða kvikindið alla leið heim.  Þar voru bæturnar teknar upp og hafist handa við að lagfæra ósköpin.  Ég átti eina götótta slöngu sem ég bætti í leiðinni og hef heitið mér því að fara ekki lengra en út í sjoppu án þess að vera með gúmmíið og pumpu meðferðis.


Svona á að gera það.......

Merkilegt hvað letin er að gera út af við marga.  Þessum var parkerað svo vel uppi á gangstétt að með ólíkindum var.... og það voru ekki nema í mesta lagi 20 metrar í þokkalegustu bílastæði.

billl

 


Esjan endilöng

Jæja, þá getur maður með sanni sagt að Esjan hafi verið lögð undir fót.  Við Þórólfar gengum hana endilanga, ásamt því að leggja Laufskörð og Móaskarðshnjúka undir okkur.  Esjan er ekkert svo skemmtilegt fjall.  Langt og frekar leiðinlegt.  Hún er leiðinlega grýtt og seinfarin.  Frá þeim stað sem við lögðum upp, við Ártún, og á leiðarenda eru þetta um 25 kílómetrar, svona svipað langt og milli Skóga og Þórsmerkur, Fimmvöðruháls.  Þetta var fínasta dagur engu að síður enda skemmtilegur félagsskapur. 

Eftir gott bað fengum við Kristín okkur svo góða nautasteik og rauðvínstár.  Vorum svo steisofnuð fyrir miðnætti.  Við voru þreytt, Dog tired eins og John Coffee í The Green Mile.

Nú, í svona göngum þá fer maður að hugsa ýmislegt.  Ég fór að velta Lóunni fyrir mér.  Hún er allra laglegasti fugl, en mikið afskaplega þykir mér vælið í henni leiðinlegt.  Sama hvað ég reyni þá get ég ekki heyrt dirrindí, eða dýrðin dýrðin.  Mér þykir vælið minna frekar á dapran blús.  Forfeður okkar voru náttúrlega svo þjakaðir eftir erfiða vetur og svo blúsaðir að vælið í Lóunni var bara punkturinn yfir i-ið.  Það er haldið upp á hana af gömulum vana. 


Pælingar á pælingar ofan

Ég kom við í Bónus á leiðinni heim í dag.  Verslaði sitt lítið af hverju, svona eins og vera ber.  Í biðröðinni við kassann gerir maður lítið annað en að horfa í kring um sig, og líta yfir forsíður blaðanna sem eru þar til sölu.  Mér til mikillar gleði sá ég frama á Séð og heyrt að tveir sölumenn á fasteignasölu eru skotin í hvort öðru.  Mikið svakalega held ég að öllum sé létt.  Þetta er örugglega forsíðufrétt ársins.

Ég hef örlítið velt því fyrir mér hvað verður um sum mál sem skjóta upp kollinum og verða að hitamáli í einhvern tíma en hjaðna svo niður og gleymast.  Heimsókn persónuverndar til Alcan í aðdraganda kosninganna um álverið, hvað kom út úr því.  Kæra Jónínu Bjartmars, Helga Seljan til blaðamannafélagsins, hver varð niðurstaðan úr því.  Byrgið og skandallinn þar.  Þetta eru bara nokkur mál sem mikið var látið með í fjölmiðlum, en svo bara púfff.... áhuginn enginn.  Allt búið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband