Færsluflokkur: Bloggar

Alveg gengur þetta glimrandi vel

Jæja.  Hvítasunnuhelgi, oft kölluðu fyrsta ferðahelgi ársins.  Það er nú lítið ferðaveður núna.  Frekar kalt og lítið spennandi að tjaldbúast.  En þetta fer allt að koma.

Í vikunni lauk Hjólað í vinnuna, átaki ÍSÍ.  Vísarar stóðu sig alveg hreint með mestu ágætum.  Við urðum í fimmta sæti yfir dagafjölda og í sjötta sæti yfir flesta kílómetra á starfsmann.  Ég held að ég hafi endað í 351 km.  Samt ekki alveg viss.  Síðasti dagurinn var þriðjudagur, og á miðvikudag sá maður varla nokkurn hjólamann á ferðinni úr eða í Hafnarfjörðinn.  Við erum náttúrulega átaksfólk með eindæmum.  Tökum það með trompi.

Það má vel vera að maður skelli sér í göngu á morgun.  Fara á Vörðuskegga í Henglinum nú eða á Móskarðshnúka.  Ætli maður láti ekki kylfu ráða kasti.  Nú einnig er spennandi að fara í tveggja til fjögurra tíma hjólatúr.  Maður sér til hvernig veður og færð verður.

Ég gekk í Sjálfboðaliðasamtök um náttúrvernd í vetur.  Þetta er félagskapur sem vinnur að göngustígagerð og fleirum álíka verkefnum víðsvegar um landið.  Ég veit ekki hversu virkur ég verð, en fyrsta verkefnið sem ég ætla að taka þátt í er á fimmtudagskvöldið næsta. 

Kristín og Máni farinn austur í sveitina.  Sauðburður í fullum gangi.  Strákurinn ekkert smá ánægður með að vera kominn í sumarfrí.  Algjör sæla. 


Nöldur, svona rétt til að ná úr sér hrollinum

Jæja.  Nú er kominn tími til að rausa.

Ég er bara mjög sáttur við nýja ríkisstjórn.  Reyndar hefði ég viljað að sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með jafnara kynjahlutfall, en Þorgerður Katrín er nú á við þær margar.  Fyrir kosningarnar spáði ég því að þessir flokkar myndu skríða saman. 

Ég er ennþá í spámannsbuxunum.  Ég held að það væri farsælast fyrir framsóknarflokkinn að ganga til liðs við Samfylkinguna.  Þessir flokkar eru ekkert agalega ólíkir og ég held að kröftum framsóknarmanna væri betur varið í stærri flokki og framsóknarflokkurinn er búinn að vera í þeirri mynd sem hann er í dag.  Spái því samruna þessara flokka innan ekki langs tíma.... tja segjum innan tveggja ára.

Hvað er þetta með Björn Bjarnason.  Hann hefur reynar aldrei verið minn tebolli og ekki batnar það hjá honum.  Á heimasíðu hans má lesa..."Morgunblaðið leggst eindregið á þá sveif í leiðara sínum í dag, að ríkisstjórnin eigi að halda áfram, enda hafi hún til þess meirihluta. Forsíðufrétt blaðsins er einnig í þeim anda."  og hvað með það?  Hvaða máli skiptir það hvað blaðamönnum eða ritstjóra á Mogganum finnist um ríkisstjórnina?  Furðulegt.  Eins held ég að hann verði að líta það alvarlegum augum hversu óvinsæll hann er.  Það þýðir lítið fyrir hann að snúa útúr með því að segja a 80% hafi ekki strikað hann út.  Þetta er sama útúrþvælda afsökun sem hann kom með þegar Guðlaugur Þór hafði hann betur í prófkjörinu í fyrra.  Maðurinn áttar sig ekki á því að það er verið að hafna honum.  Þó "aðeins" 20%, eða hvað það nú var, strikuðu hann út þá held ég að enn fleiri hafi hugað sér að gera það, eða kosið annan flokk.  Djúpur.

Þá er nöldurhornið tæmt í bili.  Næst segi ég frá því hver verður næsti forstjóri Símans.


Astraltertugubb

Skelfing geta fréttir af stjórnarmynduninni verið leiðinlegar.  Og mikið afskaplega svara stjórnmálamennirnir leiðinlega.  Rignir upp í nefið á þeim og yfirlætið lekur af þeim.

Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að ganga alla leið og henda Þorgerði Katrínu úr ríkisstjórninni.  Þvælist hún ekki bara fyrir í þessum kallaklúbbi?


Mikið af hinu góða

Risessa2Hér má sjá dömuna sem allt snérist um á laugardaginn.  Ég var við það að missa fingur af kulda og eyrun köld í gegn þegar ég beið eftir henni.

Risessan er snilld.  Öll umgjörðin utan um þetta ævintýri var frábært.

Kristín náði nokkrum góðum myndum af henni - ég læt eina fylgja hér.


Léttvín og bjór

Getur Framsóknarflokkurinn ekki bara vel við unað.  Hann er nú ekki í neinu pilsnerfylgi meira að segja ekki bjórfylgi.  Nei, Framsókn er í þokkalegu léttvínsfylgi.  Reyndar hefur Framsókn ekki verið með minna fylgi í 90 ára sögu hans.  Það er önnur saga

Ég hef verið að reyna að átta mig á þeim ósköpum og óhróðri sem fjölmiðlar og stjórnarandstaðan eru sögð hafa látið dynja á Framsóknarflokknum og frambjóðendum hans síðustu vikur og mánuði fyrir kosningar.  Ég hef ekki enn náð að koma auga á neitt afgerandi.  En það má nú vera að ég sjái ekki skóginn fyrir trjánum. 

Ég spáði því fyrir kosningar að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndu skríða saman upp í rúm.  Ég ætla að halda mig við þá spá í smá stund í viðbót....


Mér þótti Siv syfjuð...

... það var viðtal við hana í sjónvarpinu.  Hún virkaði dálítið þreytt.  Ætli hún sé búin að fá nóg?

Risessan var aftur á móti alveg frábær. 


Fall ársins, samkvæmt fyrstu tölum

... og er það ekki bara málið.


Og það var kosið

Þar sem þetta eru leynilegar kosningar þá ætla ég ekki að gefa uppi hvað ég kaus.  Þó verð ég að hryggja suma og viðurkenna að ég kaus hvorki Vinstri Græna né Framsókn.  Aðrir gleðjast yfir þessu.


Hana, étið þetta

Við þökkum kærlega fyrir meðaltalið.  Það er ekki svo slæmt. 

Ég hef verið í smá vandræðum með að átta mig á hversu mikla kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna mér hafi hlotnast síðustu árin.  Ég var sannfærður um að það væri nánast bara ekki neitt.  Alla vegana finnst mér buddan  mín alltaf  frekar létt.  En svo ákvað ég að skoða þetta örlítið nánar og komst að fínni niðurstöðu.

Ég lagði saman ráðstöfunartekjur mínar, tveggja leikskólakennara, eins framhaldsskólakennara, Bjarna Ármannssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar, Björgúlfs Thors Björgúlfssonar og mömmu minnar sem vinnur á Sólvangi.  Svo deildi ég bara.  Ekkert flókið dæmi.  Útkoman var ótrúleg.  Við höfum það sko alls ekkert skítt.  Heldur að meðaltali helvíti gott.  Við erum, að meðaltali, með skrilljónir til ráðstöfunnar.

Hvað er svo verið að væla.


Vegalaus úti í óbyggðum með langa fyrirsögn vommandi yfir hausnum

Það birtist heilsíðuauglýsing í einhverju blaðinu í dag frá því ágæta fyrirtæki Brimborg.  Þar sagði að bílar menga ekki, heldur mennirnir sem þá keyra og eiga.  Einmitt.  Byssur drepa heldur ekki, heldur þeir sem þær eiga. 

Bílar eru fræbærir og allt gott um þá að segja.  Ég hef ekkert undan þeim að kvarta, en svona auglýsingar eru bara prump.  Það mætti alveg eins segja að nammi skemmir ekki tennur, rigning gerir mann ekki blautan nema maður standi óvarinn úti undir berum himni í rigningu.  Dæmalaus vitleysa.

Þar sem ég hef ekki enn gert upp hug minn varðandi kosningarnar núna á laugardaginn, gerði ég það að gamni mínu að taka eitt skemmtilegt próf sem á að sýna hvert hugur manns stefnir.  Til að sannfærast tók ég prófið í tvígang og lét líða sólarhring á milli.  Það er skemmst frá því að segja að ég, kaupfélagsstjórasonurinn sjálfur, aðhyllist minnst framsóknarflokknum.  Það kemur mér svo sem ekki mikið á óvart.  Samkvæmt þessu prófi kýs ég Hindúaflokk sem hefur ekki enn verið stofnaður, en hann kemur til með að leggja áherslu á Hatha yoga, baunaspíruræktun, íhugun og að fá Formúlu eitt keppni hingað til lands.  Ég verð væntanlega dauður þegar að þessu öllu saman kemur.

Ég heyrði aðeins í vini mínum í dag, en hann er búsettur úti í Noregi.  Hann er að kæfa sig í vinnu og kvefi en hefur það þó fram yfir okkur að sumarið er byrjað að banka uppá hjá þeim.  Hann gerir ráð fyrir að það bresti á með fullum þunga eftir tvær vikur eða svo.  Ég vona að okkar sumar láti sjá sig ekki seinna en um miðjan júlí og vari, að minnsta kosti fram í ágústlok.  Þá verð ég alsæll.  Nú er bara að bíða, vona og sjá.

Ég er ekki enn búinn að átta mig á nýja teljarasísteminu hér á moggabloggi.  Kem væntanlega ekki til með að skilja það.  En það er líka barasta allt í lagi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband