Færsluflokkur: Bloggar

Píslagangan - Síminn

Að vera fyrstur með eitthvað á Íslandi og auglýsa það með meira en 2000 ára gamalli uppákomu er frekar hlægilegt og dálítið lýsandi.... 

Auglýsingin er flott unnin og allt það, en fyrir mitt leiti þá er frekar kjánalegt að tengja símann og Jesú saman.  Það er spurning um að þessa fínu línu, fara ekki yfir hana.

Í Kastljósinu í kvöld reyndi Brynja að gera mikið mál úr þessu.  Var ekki bara íslenskt Spámannsmál í uppsiglingu.  Fulltrúi biskupsstofu eyddi öllu slíku.  Enda óþarfi að tapa sér yfir þessu.

Auglýsingahöfundurinn, Jón Gnarr, varði náttúrulega barnið sitt.  Tók meir að segja svo djúpt í árinni og sagði auglýsinguna fallega.  Tja.... hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það.

Síminn fær náttúrulega hellings umtal, allir hafa skoðun á þessu.  Er þá ekki tilganginum náð hjá þeim?


Uxum ásmegin

Það tók dálítið á að hjóla heim eftir vinnu í dag.  Mótvindur töluverður, ég þurfti meir að segja að hjóla niður Kópavogs- og Arnarneshæðirnar, það var ekki viðlit að hægt væri að láta sig bara renna.  Svo rigndi líka slatta.  Þetta var hressandi en tók töluvert lengri tíma heldur en dags daglega.  Það var mun skárra veðrið í morgun.  Þá var bara rigning og nánast logn.

Það hófst heilsuátak hjá okkur í VÍS í dag.  Maður var mældur í bak og fyrir.  Það verður gaman að sjá hvort maður geri einhverja góða hluti.  Létta sig um nokkur kíló eða svo.  Kemur allt í ljós.  Alla vegana stefni ég að því að dusta rykið af kortinu mínu í ræktinni, og jafnvel að fara að mæta.


FH

Við feðgarnir skelltum okkur á völlinn í gær og horfðum dáleiddir á okkar menn, FH, sigra Breiðablik í stórskemmtilegum og spennandi leik. 


Nótt

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal,
í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
Þeir hafa boðið góða nótt.

Nú saman leggja blómin blöð,
er breiddu faðm mót sólu glöð,
í brekkum fjalla hvíla hljótt,
þau hafa boðið góða nótt.

Nú hverfur sól við segulskaut
og signir geisli hæð og laut,
er aftanskinið hverfur hljótt,
það hefur boðið góða nótt.


Þetta fer allt að koma

Þetta er ljúfur árstími.  Dagarnir bjartir og rökkur á kvöldin.  Yndislegt að rölta um bæinn sinn.  Skoða hús, garða, fólk, göturnar og allt sem fyrir ber. 

Fórum í kjötsúpu til mömmu í kvöld.  Það var gott.  Spjölluðum svo við hana, Júlíu og Hlyn.  Áttum góða stund með þeim.  Datt svo í einhverja nostalgíu og skoðaði myndaalbúm.  Myndir sem mamma hefur tekið síðustu ár.  Sérstaklega gaman að sjá hvað við bræðurnir vorum einu sinni grannir og spengilegir.  Í dag er Hlynur sá eini sem með sanni má segja að líti skratti vel út.  Við hinir erum að slaga í að verða miðaldra bumbur.  En ég held að við séum að vinna í þessu. 

Sjá tólin fyrir jólin... það er málið.


Algjörlega út úr kú

Ég fékk lánaðan Queen disk hjá Hlyn bróður.  Greatest Hits 1.  Hvert snilldarlagið á fætur öðru.  Það var gaman að rifja upp öll þessi snilldarlög.  Ég fer ekki ofan af því að Farrokh Bulsara, betur þekktur sem Freddie Mercury, var einn allra besti söngvari sem hefur lifað á þessari vesælu plánetu.

Þetta var útúrdúr.  Kemur ekki neinu við.  Ekki baun í bala.


Sumarfríið búið

Sumarfríið búið.  Tókum hringinn á samt ýmsum útúrdúrum á tæpum tveim vikum.  Frábært.

Vinna á morgun.  Lífið skríður í fastar skorður.  Það verður ágæt.  En hefði alveg verði til í að minnsta kosti eina viku til viðbótar.... tvær vikur í röð eru svona rétt til að vinda ofan af manni. Næsta sumar verður öðruvísi.


Spáð og spögglerað

Nú er spurning hvert maður fer um helgina... austur eða vestur?  Kannski verða rólegheit yfir öllu og við brunum ekki úr bænum fyrr en eftir helgi... stutt í sumarfríið.


Er hægt að selja fólki allt....


Ótrúlegt.

 


Ömurleg miðborg

Enn einn dásemdardagur.  Það er bara ekkert lát á sumrinu.  Hvernig endar þetta eiginlega.

Við Kristín vorum mætt út í Suðurbæjarlaug klukkan rúmlega tíu í morgun.  Lágum á bakkanum og bökuðum okkur til klukkan eitt.  Er samt merkilega lítið brenndur, enda bar ég öfluga barnasólvörn á mig allan, svona til að koma í veg fyrir stórslys.

Víð fórum svo í smá stúss.  Í Útilífi keyptum við okkur potta sem okkur hefur langað í.  Þetta er sérleg kasaróla til að elda útilegumat.  Létt og vonand bara skratti góð.  Nógu mikið kostuðu herlegheitin. 

Nú eftir það ákváðum við að skoða miðborgina örlítið.  Lögðum við Hallgrímskirkju og röltum þaðan niður Skólavörðustíginn og niður á torg.  Það er alveg merkilegt hvað miðborgin er skítug og þreytt.  Það er ljótt að sjá hve allt er lúið og ógeðslega skítugt, útkrotað og viðbjóðslegt.  Gangséttarnar haugskítugar og annar viðbjóður þar.  Það er ekki nema von að maður er alveg hættur að fara þangað.  Í þau fáu skipti sem maður fer blöskrar manni gjörsamlega.  Ömurlegt. 

Það styttist í Hornstrandir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband