Færsluflokkur: Bloggar

Ullarsokkurinn - http://ullarsokkurinn.wordpress.com

Jæja, ég er búinn að standa í flutningum síðustu daga, án þess þó að hafa flutt nokkurn skapaðan hlut með mér, annað en mig sjálfan.  Ég byrjaði sem sagt að blogga á öðru bloggi -  það sem meitlað hefur verið á þessu svæði fær að standa, um sinn að minnsta kosti.  Eða þar til ég hef fundið leið til að flytja það yfir.

Hér á moggabloggi hef ég verið frá haustmánuðum 2006, þar áður var ég, frá haustmánuðum 2003 á öðru bloggi sem hét blogdrive.  Þar áður var ég með blogg einhversstaðar sem ég get ómögulega munað hvar var.

Eftirleiðis ætla ég að blogga undir dulnefninu ULLARSOKKURINN en í raun er það ekkert dulnefni.  Þeir og þær sem þekkja mig vita að ég er óttalega mikill ullarsokkur í mér.

http://ullarsokkurinn.wordpress.com

 


Er ekki lífið dásamlegt?

Ég er lökkí bastard, þannig er það nú bara.  Ég fór austur fyrir fjall eftir vinnu til að skoða gæsir og freista þess að plamma niður eins og eina.  Ég var kominn þangað rétt fyrir sjö.  Klæddi mig og arkaði af stað.  Það er ekki nema rétt um eins og hálfs kílómetra gangur að þeim stað þar sem ég hafði ákveðið að leggjast.  Strax og ég var kominn, og væntanlega einnig áður, var mikið um flug.  Meira að segja komst ég oftar en einu sinni í príma færi - en ekkert gekk hjá mér.  Ég vil kenna því um að ég var ekki með mína byssu, heldur eðaltvíhleypu sem ég hef að láni.  Ég hefði betur skotið nokkrum skotum úr henni áður svona til að læra aðeins á hana.  En helsta ástæðan fyrir lélegum aflabrögðum er örugglega sú að ég er skelfilega léleg skytta og hef því miður verið afskaplega latur við að æfa mig.  En ég hef lofað sjálfum mér því að bæta mig og hef því skráð mig í Skotvís og fylgir aðild að Skotreyn með í pakkanum.  Æfing... æfing... æfing.  Og náttúrulega þolinmæði.  

En það var frábært að fylgjast með gæsunum og álftunum sem flugu þarna í hundruða vís.  Það eitt nægði mér.  Að vera einn með  sjálfum sér í náttúrunni og fylgjast með því sem fyrir auga ber toppar nánast hvað sem er.  Ég var þarna fram í brúnamyrkur.  Veðrið var milt, rigning og logn. 

Það verða betri aflabrögð seinna í haust.  I can feel it in my bones.

Svo styttist í rjúpnaveiðitímabilið. 


Tilhlökkun og mikið af henni

Stefán Jónsson, veiðimaður, rithöfundur, útvarpsmaður og alþingismaður segir frá tilhlökkuninni og gildi hennar í bók sinni, Lífsgleið á tréfæti með byssu og stöng.

Hún er nefnilega annað og meira en aðdragandi einhvers sem gerist vonandi...

... Markmiðið er að ná hámarks nýtingu - sextíu sekúndna virði af gleði - úr hverri mínútu veiðiferðar sem byrjar með tilhlökkun löngu áður en lagt er af stað í hana og verður kannski aldrei farin.

Svo mörg voru þau orð.  Þessa bók hef ég lesið ótal sinnum ásamt öðrum bókum og greinum um veiðar.  Hvort heldur er um stang- eða skotveiði.  Eins get ég gleymt mér yfir dvd myndum um þessar íþróttir.  Mig langar til að vera mikill veiðimaður, er það ekki.  Gutl mitt við stöngina og þetta litla sem ég hef handleikið byssuna hefur gefið mér mikið, en ég hef upplifað tilhlökkunina í gegnum þessar bækur og myndir og hefur það dugað mér.  Þar til núna.  Um síðust helgi fór ég í fyrsta sinni á alvöru gæsaveiðar.  Það var magnað að upplifa allt flugið, sjá gæsir í hundruðavís fljúga um öll Skeiðin, en eins og ég hef sagt skaut ég ekkert.  EN þessi upplifun var frábær og ég ætla núna að hamra járnið og fara aftur núna á föstudaginn.

Ég aulaðist út með minn þunga rass strax eftir vinnu og mundaðist leiðindin.  Ég gekk mun meira núna en síðast.  Var frekar slæmur í fótunum, beinhimnubólga.  Ég stefni á að fara í göngugreiningu, fá mér almennilega skó, er að djöflast á gömlum görmum og síðast en ekki síst - halda áfram... halda áfram... Markmiðið er skýrt og stefnan tekin þráð beint á það.

En það eru tölur engu að síður (frekar glataðar):
Dags:  16.09.09
Tími:  00:30:39
Meðalpúls:  126
Hámarkspúls:  171
Brennsla:  322 kcal


Fór á gæs

Það varð ekkert úr skokki á föstudaginn.  Við vorum komin mjög seint heim eftir vinnu og svo var ég bara latur.

Við eyddum laugardeginum fyrir austan fjall, hjá Flúðafjölskyldunni.  Á meðan Kristín og Steina dunduðu sér við ditten og datten, fórum við Jónas niður á Skeiðin til að líta eftir gæs.  Um kvöldið lögðumst við svo út og urðum vitni að miklu flugi, en því miður vorum við ekki nægjanlega vel staðsettir.  Þær flugu í kringum okkur án þess að við kæmumst í færi.  En gaman var þetta - alveg hrikalega gaman. 

Ég fór bjartsýnn út að skokka eftir vinnu í dag, þrátt fyrir hálf hryssingslegt veður, en fann fljótlega að þetta var ekki minn dagur.  Verkir í leggjunum framanverðum voru að  plaga mig og eins verkur í hásin á vinstri fæti.   Ég fór því rólega yfir.  (hahaha, heyra í mér. Ég tala eins og þræl vanur hlaupari... auðvitað fór ég róleg yfir, ég komst bara ekkert hraðar.  Rassin er svo þungur.) En það sem var verst af öllu er að ég gleymdi mp3 spilaranum, þannig að ég hafði ekkert í eyranu til að drepa tíman.  Þetta var því eins leiðinlegt og hugsast getur.  En það eru tölur:

Dags:  14.09.09
Tími:  00:39:00
Meðalpúls:  130
Hámarkspúls:  167
Brennsla:  438 kcal

Þegar ég pjakkað þetta hugsaði ég um þau ráð sem ég hef fengið frá vinum og vinnufélögum:  Ekki fara of geyst af stað, byrjaðu rólega og skokkaðu annan hvern dag til að byrja með.  Ég hef náttúrlega ekkert farið eftir því, heldur öslað út hvern virkan dag.  Því ákvað ég að róa mig aðeins niður og fara ekki út á morgun, heldur næst á miðvikudaginn, hvíla á fimmtudag og fara svo aftur út á laugardag.  Líst vel á það.


Ég er klikkaður

Við vorum sein fyrir, smá búðastúss áður en við komumst heim.  Ég stökk af stað og rauk á ótemjuna.  Var búinn að hlakka til í allan dag að fara í hjólatúrinn minn.  Um leið og garmurinn var búinn að ná tunglum var ég búinn að ákveða hvert ég skyldi hjóla.  Álftanesið varð fyrir valinu.  Þetta varð fínasti hringur.  Fékk á mig dálítinn mótvind og slatta af rigningu.  Þetta urðu 20,4 þægilegir kílómetrar sem ég lagði undir dekk.  Og tölurnar:

Dags:  10.09.09
Tími:  1:06:09
Meðalpúls:  133
Hámarkspúls:  166
Brennsla:  803 kcal

Þegar ég renndi í hlað þá var ég þægilega þreyttur og það sem flaug í hausinn á mér sýnir hvað ég er klikkaður - mér datt í hug hvort ég ætti ekki bara að skokka aðeins.  Ég lét það þó vera.  Geri það á morgun.

 


Upp úr sófanum maður...

Mér finnst best að drífa mig út strax og ég er kominn heim.  Ekki fara að gera eitthvað og eiga svo eftir að fara út að hjóla eða (rembastviðaðskokka).  Þannig var það þegar við komum heim í dag.  Stökk beint í gallann og út.  í dag átti að skokka.  Ég fann það þegar ég fór af stað að þetta yrði nú ekki eins leiðinlegt og áður.  Mér leið bara þannig.  Kannski hjálpaði það til að ég var með uppáhalds hljómsveitina mína í eyranu, The Queen.  Mér gekk líka ljómandi vel.  Gekk og hlunkaðist áfram rétt rúma fjóra kílómetra ár á þrjátíu og átta mínútum, skv. Pólargræjunni og þar sem ég er alltaf með hana á mér er ekki úr vegi að skella tölunum hér inn:

Dags:  09.09.09
Tími:  38,19
Meðalpúls:  146
Hámarkspúls:  177
Brennsla:  535 kcal

Mér var bent á fína síðu fyrir byrjendur í hlaupi, Couch to 5k. og hún er meira að segja á íslensku.  Ég ætla mér að skoða hana, henni fylgir einnig podcast (hlaðvarp?).  Spennandi... spennandi...


Þriðjudagur - hjólasprettur

Eitt er ferlega merkilegt.  Ég get hjólað nánast endalaust.  Kannski ekki á geðveikum hraða, heldur get ég pjakkað og pjakkað áfram og þó ég sé næstum búinn að æla lifur og lungum sökum mæðist, þá hægi ég bara á í nokkrar mínútur og svo get ég haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.  Þegar ég myndast við að rembast við að skokka þá er ekki nóg að ég hvæsi og blæs eins og físibelgur, heldur þreytist ég í fótunum (væntanlega vegna þess að lítill og feitur kall á að gera það).

Ég skellti mér á skeið eftir vinnu í dag.  Fákurinn teymdur út og strikið tekið upp í Setberg, þar sem ég kom við í apóteki til að kaupa mér glas af Astasan -i.  Eftir það var var gefið almennilega í og hjólað innst í hverfið, þaðan yfir Áslandið, gegnum Vallarhverfið og áleiðis upp í Krýsuvík.  Það var rennifæri og þá er bara gaman að gefa í.  Ég hjólaði dálítið lengra en gatnamót Bláfjallavegar - Krýsuvíkurvegar.  Leiðin heim var dálítið strembnari, þá var dálítil mótgola (ekki vindur) sem sagði örlítið til sín.  En þetta var gaman og ég endaði með að leggja 22.4 km undir dekk á rúmum 64 mínútum.  Ánægðurmeðedda...


Mánudagur ... fínn dagur

Ég lét mig hafa það og fór út að rembast við skokk, um leið og við komum heim úr vinnunni.  Það gekk bærilega.  Ég held uppteknum hætti og jogga og geng ójöfnum höndum... og stíllinn maður minn, alveg skelfilegur.  Ég hef er með fínan hring sem ég fer og get bætt við hann nokkrum metrum þegar ég vil. 

Á morgun verður hjólað... það verður bara gaman.


Laugardags-sprok

Dagurinn í dag var frekar ljúfur og góður.  Ég var vaknaður fyrst um klukkan rúmlega átta, en dormaði dálítið frameftir.  Eftir að hafa lesið blaðið, tekið úr uppþvottavélinni og fleira snurfuss fórum við skötuhjú út.  Laugarvegur, Bankastræti og torgin (Austurstræti, Ingólfstorg og Austurvöllur) iðuðu af lífi.  Vil hlustuðum á frábæra tónlist á Ingólfstorgi, þar var verið að mótmæla breytingum á Ingólfstorgi, og Nasa.  Ég varð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þessar breytingar af neinu viti.  Bræðingur Tómasar R. Einarssonar lék við hvurn sinn fingur og ég dillaði mér með. 

í hjarta Reykjavíkur léku þau Guðmundur Pétursson og Ragnhildur Gröndal við alla sína fingur og fengu ömmur, afa, frændur, frænkur mömmur, pabba og einnig bræður og systur til að hlusta á falleg lög í mögnuðum flutningi.   Guðmundur var eins og heil hljómsveit með Ragnhildi, sem söng eins og engill.

Er að skipuleggja hlaupa og hjólaferðir fyrir næstu viku.  Verð að koma sundinu þar fyrir líka.


Skokka, ganga, skokka, ganga ...

Helgin gengin í garð.  Ljúft.  Strax eftir vinnu lét ég mig hafa það og skellti mér í stuttbuxur, bol og þunna flíspeysu og fór út og myndaðist við að skokka, ganga, skokka, ganga.  Ég er ekki frá því að mér hafi þótt örlítið ögn skemmtilegra að myndast við þetta í dag en áður.  Mér gekk líka betur, skokkaði lengur á milli þess sem ég gekk.  En ég segi nú ekki að þetta hafi verið neitt gegt skemmtilegt og stíllinn er jafn hræðilegur.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband