Heildarútgáfa

Meðlimir Baggalúts koma með enn einn jólasmellinn fyrir þessi jól, dásemdarlagið um rjúpuna.  En þeir hafa einnig tekið ein helstu  meistaraverk sköpunarsögunnar saman á eina áheyrilega hljómskífu sem öllum er hollt að eignast - og það sem allra fyrst.

Þar kom að því

Upp, upp mín sál og allt mitt geð. 

Jú ég hef skriðið nokkuð vel saman.  Kom undan þessum flensuleiðindum töluvert mikið breyttur.  Ég las nefnilega Draumaland Andra Snæs.  Ég verð að viðurkenna að þessi bók kom nokkuð mikið við mig. 

Ég er einn af þeim sem hefur gufast þetta - ekki haft fyrir því að kíkja undir þá steina sem fólk, eins og Andri Snær, hefur velt við fyrir okkur hin til að kanna betur undir. 

Okey.  Bókin kom út í mars sl. Ég eignaðist hana bara fyrst núna.  Kristín gaf mér hana.  Draumalandið hefur ekki mikið verið á lausu á bókasöfnum, ekki kunni ég við að stela henni, líkt og einn gagnrýnandi lagði til, og ég bara fattaði ekki að kaupa hana sjálfur.  En betra seint en aldrei.

Ég hef alltaf talið mig vera með báðar fætur á jörðinni.  Viljað nýta og njóta landsins og verið sannfærður um að það sé hægt.  Ég er ekki lengur viss.  Ég held að það sé minnsta kosti ekki hægt, miðað við þá stefnu sem tekin hefur verið, og unnið er eftir.  Sú stefna er alls ekki farsæl.

Það má vel vera að það megi finna einhverjar misfellur eða mismæli í bókinni.  Ég veit það ekki.  Hitt er annað mál, ég held að í henni sé mun meira rétt en rangt.  Það hefur að minnsta kosti ekki neinn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að Draumalandið sé bull frá A-Ö.  Það hefur enginn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að helmingurinn af bókinni Draumalandið sé bull og vitleysa.  Það hafa örugglega einhverjir eldheitir virkjunarsinnar stigið fram og sagt að þetta atriði og þessi lína hér, og þetta hér standis bara ekki, sé bara ekki rétt.  Kann meira að segja að vera að þetta fólk hafi rétt fyrir sér.  En hvað með allt hitt sem kemur fram í bókinni?  Er hægt að tína út spörðinn, vaðandi drullu upp fyrir haus?

Ég hef í tvígang komið upp að Kárahnjúkum.  Ég viðurkenni að mér þótti ekki mikið til koma.  Þótti þetta svæði vera frekar þunnur þrettándi.  En ég hef reyndar bara séð svæðið rétt í kringum stífluna.  Ég hef líka séð háspennulínurnar sem skera landið í Fljóts- og Skriðdalnum.  Það fannst mér vægast sagt hryllingur.  En ég hugsaði með mér, það verður alltaf að færa einhverjar fórnir.  En fyrir hverja?

Ég veit að lítið er hægt að gera úr þessu, eða?   Ég bið Guð um að forða okkur frá því að gera önnur eins mistök aftur.


Draumur okkar beggja

Hefur þú lesið Draumalandið?

Hér er mögnuð myndasyrpa eftir Christopher Lund við lag Damien Rice.


Rorrandi skorrandi

Annar dagur í leiðindum. 

Ég svaf frekar lítið síðustu nótt.  Það var á tímabili eins og hausinn væri að springa.  Hann gerði það ekki, sem betur fer.  En það var betra að sitja uppréttur og hnerra eins og vitleysingur en að liggja útaf.  Mér tókst þó að sofna seint og um síðir.  Vaknaði svo um klukkan sjö og vakti betri helminginn datt svo út aftur um hálf átta og rumskaði ekki fyrr rétt fyrir ellefu.

Svo hefur dagurinn farið í það að vafra á netinu, dorma í sófanum, lesa Draumalandið, dorma í rúminu og annað álíka áhugavert.

Ég hafði hugsa mér að setja svona veikindamynd af mér hingað, en gat ekki fengið mig til þess.  Útlitið mitt var fjórfalt verra en vanalega og því gat ég ekki lagt það á nokkurn mann að sjá þessi ósköp.


Smá skyr

Það lá í loftinu alla helgina.  Þurr og aumur háls, vottur af beinverkjum.  Og einhver slumma í manni.  Í gærkvöldi þegar við vorum að skríða upp í rúm var svo farið að renna úr nefinu.  Ég er heima núna með sængina upp undir höku, hendurnar fá að slefa undan henni til að berja lyklaborðið.  Það er kannski eitt gott við þetta alltsaman.  Draumaland Andra Snæs styttir mér stundir.  En á móti legg ég ekki í að fara á æfingu, þannig að í fysta sinn í á annan mánuð dettur út dagur hjá mér.  Árinn.


Það var svo sem...

Jæja, Mýrin mynd ársins.  Maður verður víst að koma sér í bíó og sjá stykkið. 

Og til að býta hausinn af skömminni þá var Ó. Ragnarson kosinn sjónvarpsmaður ársins.   Hvað er í gangi?

Ég er þá bara sammála Víking bróður.  Eddan er bara svo leiðinleg.


Og áfram skal haldið

Þetta er búið að vera fínasta helgi.  Eftir vinnu á föstudeginum skellti ég mér í ræktina og puðaði þar í dágóðan tíma.  Það virkar sem vítamínsprauta að fara eftir vinnu og hamast og pumpa almennilega.  Þegar heim var komið fengum við Kristín okkur súpu og brauð og spjölluðum fram eftir kvöldi. 

Á laugadagsmorgninum var ég vaknaður fyrir níu.  Nokkrir almennilegir Þórólfar voru búnir að ákveða að skella sér á Helgafellið.  Og það gerðum við.  Það var -16°C þegar við lögðum í'ann.  Drullu kalt en við gengum rösklega til að koma hita í okkur.  Það var fallegt á toppnum - horfa yfir höfðuborgarsvæðið.  Fyrst ég fór í þessa göngu nennti ég ekki á æfingu.

Þegar ég kom svo heim skaust Kristín og sótti Mánann í Kópavoginn og kom honum á fótboltaæfingu.  Eftir hana snudduðumst við aðeins í bænum gerðum það sem þurfti að gera.

Um kvöldið skelltum við okkur í leikhús og sáum Amadeus í Borgarleikhúsinu.  Það var ágætt.  Pínulítið of langt.  En svona á heildina litið bara nokkuð gott.  Hilmir Snær alveg að gera það í hlutverki Salieris.  Náði að halda stykkinu uppi.

Við fengum okkur svo bara pizzu og rauðvín eftir leikhús.

Svo í dag var vetur.  Við mokuðum, snjóhreinsuðum bílinn og fórum í langan göngutúr.  Svona eiga góðar helgar að vera.


á ég eða á ég ekki?

Í þrjú ár hefi ég bloggað nokkuð reglulega í blogdrive kerfinu.  Það var ömurlegt.  Þar áður bloggaði ég á folk.is, það var hræðilega rólegt kerfi.  Gafst upp á því.  Og fyrir það var ég að möglast við þetta á blogspot.  Nú er ég hér, í bili að minnsta kosti.  Kannski verður þetta síðasta lending fyrir www.heidarbirnirkristjánsson.is.  Heimsyfirráð eða dauði og allt það.  En þetta lítur vel út. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband