Helgafell, hjól og ganga - gúmmíkall

Mér finnst jafn gaman að hjóla og mér finnst leiðinlegt að (reyna) að skokka, þess vegna ákvað ég að kanna hvernig þetta tvennt færi saman.  Um leið og við komum heim eftir vinnu tók ég fákinn út og skellti mér á skeið.  Leiðin lá upp í Kaldársel.  Þar var hjólið tjóðrað við girðingu og strunsið tekið í átt að Helgafellinu.  Ég viðurkenn að ég hljóp nú ekki mikið, rétt aðeins við fót.  Ég fór upp gilið og vel upp fyrir miðjar hlíðar.  Lét það duga.  Á heimleiðinni spretti ég aðeins úr spori og "hljóp" aðeins.  Hjólaði svo eins og upptrekktur apaköttur alla leiðina heim.  Samtals urðu þetta sléttir 20 kílómetrar, rúmir átta upp í Kaldársel, tæpir tveir á Helgafellið. Og svo til baka. Kalla þetta tvíþraut - eða gúmmíkall til aðgreiningar á járnkalli, sem er náttúrulega ALVÖRU - ALVÖRU.  Þetta var ágætis útivera.

Þegar heim kom var ég hungraður eins og úlfur og graðkaði í mig ostapasta að hætt hússins.  Át þó ekki alveg á mig gat, en næstum því.


Til hamingju með ammælið Tobba

Önnur vinnuvika eftir sumarfrí rúmlega hálfnuð, nóg að gera og tíminn líður hraðar en hratt.  Það eru ekki nema 114 dagar til jóla.  Hvernig endar þetta.

Tobba mágkona á ammæli í dag, fertug blessunin.  Til hamingju með það.  Hún hélt upp daginn um síðustu helgi með bravör.  þá smalaði hún saman vinum, ættingjum og furðufuglum og úr varð snilldarskemmtun.  Takk fyrir okkur.

Í gær hlunkaðist ég út og myndaðist við að skokka.  Ég fór mína hefðbundnu leið, var erfitt í byrjun, svo smá versnaði það.  Þegar ég var rúmlega hálfnaður fór þetta að verða auðveldara, segi samt ekki þægilegt.  Leiðindin voru í stíl.  Leiðinlegt, meira leiðinlegt en endaði svo á að vera minna leiðinlegt.  Undir lokin var þetta sæmilegt - en ég var guðslifandi feginn þegar ég kom aftur heim.  Ég ætla ekki að minnast á stílinn, hann er ekki sjón að sjá.

Eftir vinnu í dag tók ég fákinn fram og lagði rúma 23 kílómetra undir dekk á rúmum klukkutíma.  Það tók dálítið á köflum.  Nýlögð klæðning við Heiðmörk var efið yfirferðar og sumar brekkurnar tóku vel í.  En þetta var gaman og ég er helvíti ánægður með þetta.


Hafragrautur

Hafragrautur er bæði hollur og góður.  Við búum okkur nokkuð oft til velling á morgnanna.  Væn skál af slíku kjarnfóðri snemma morguns dugar manni vel fram undir hádegi.

Strax og ég kom heim eftir vinnu fór ég út og skellti mér á fákinn og fór rúmlega 20 km. hjólahring.  Það var frábært.  Ólíkt skemmtilegra en að reyna að skokka.  En geri það næst Smile


Fyrsta vinnuvika erfið

Það verður nú að viðurkennast að það er sniðugra að byrja aftur í vinnu eftir sumarfrí í miðri viku, en ekki á mánudegi.  Mér finnst ég vera frekar sljór og starfa ekki starfa á fullu gasi, en ég er líka sannfærður um að þetta sé allt að koma.  Ég verð kominn í fluggír strax eftir helgi.  En þessi vika virðist óralöng.

Ég er búinn að festa sumarbústað í nóvember.  Stefni á að fara á samt Flúðafjölskyldunni upp í Borgarfjörð hafa það gott eina helgi og ganga til rjúpna, borða góðan mat og brúka pottinn.  Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og ég hlakka strax til.

Ég fór út og bumbaðist aftur í dag eftir vinnu.  Limaburðurinn jafn ófagur og í gær, og þetta var jafn leiðinlegt.  En mér leið vel á eftir.


Sumarfrí og skokk

Fyrsti dagur í vinnu eftir langt og gott frí.  Ég gat því ekki annað en klætt mig sómasamlega og fór í síðbuxur í fyrsta sinn í fjórar vikur.  Ég hef verið í stuttbuxum upp á hvern einasta dag í fríinu, eða í fjórar vikurSmile 

Við fórum vestur.  Ég heimsótti minn gamla heimabæ, Ísafjörð, í fyrsta sinn í nokkur ár.  Ég verð að viðurkenna að mig langar alltaf til að flytja aftur þangað aftur þegar ég fer þangað, nú eða í þau skipti sem við höfum farið á Hornstrandirnar og Jökulfirðina.  Vestfirðir eru magnaðir og ef almennilegt bein væri í nefinu á mér, væri ég væntanlega fluttur þangað upp á von um að fá vinnu þar.

Máni tók þátt Íslandsbankahlaupinu, hljóp 10 km. á 51:30  ágætis tími fyrir 14 ára gutta.  Hann hafði sett markmiðið á að fara undir 50  en það gekk ekki eftir.  Ekki í þetta skiptið.  

Ég hef alltaf litið upp til þeirra sem hlaupa, hvort sem það eru 5-, 10-, 21 km, maraþon eða jafnvel enn lengri hlaup.  Járnkallar og konur eru guðir í mínum augum.  Ég hef gaman af því að horfa á fólk hlaupa og einnig hef ég gaman af því að standa við marklínuna og hvetja fólk síðasta spölinn, og jafnvel sjá sjálfan mig í anda koma skokkandi léttfættan í mark eftir velheppna 10 kílómetra hlaup.  En ég er ekki hlaupari.  Í raun og veru hefur mér alltaf þótt hrikalega leiðinlegt að hlaupa, sama hvort það var í upphitun í leikfimi hjá Karli Aspelund í barnaskólanum á Ísafirði og ekki síður í þau fáu skipti sem ég, af fúsum og frjálsum vilja, hef tekið mig til og myndast við að skokka eitthvað smá.  Því kom ég sjálfum mér mikið á óvart með því að reima á mig skó og taka strauið út um leið og við komum heim úr vinnunni í dag og þumbast eftir Norðurbakkanum og í átt að Hrafnistu.  þetta voru nú ekki föngulegir limaburði hjá mér, og örugglega ekki fögur sjón að sjá lítinn og feitan kall hlunkast áfram, másandi og blásandi eins hval.  En mér er alveg sama.  Þetta var ekki gaman en ég stefni samt á að fara aftur á morgun.


Rigning og leti

Það er ljúft að sitja við eldhúsborðið, sötra kaffi og horfa á Sívertsen húsið og Pakkhúsið sem saman hýsa hluta af byggðasafni Hafnarfjarðar.  Það rignir, líkt og helt sé úr fötu.  Það er gott, þá hefur maður enn betri afsökun fyrir ómældri leti sem ég er að dunda við þessa dagana.

Förum í mat til mömmu í kvöld, smá fjölskylduhittingur.  Ljúft.


Hjólasprettur

Fór stuttan hjólasprett í dag.  Svona til að hreyfa sig eitthvað smá.  Kristín og únglíngurinn skelltu sér á Flúðir. 

Sumarfríið hálfnað og ég hef enn náð að sleppa því að fara í síðbuxur, hef verið í stuttbuxum upp á hvern einasta dag, hyggst halda því áfram þannig.


Föstudagur og tærnar enn upp í loft

Við leggjum í'ann á mánudaginn, hvert ferðinni verður heitið er ekki á hreinu - fer eftir veðri og vindum.  Hvað við verðum lengi er einnig á huldu, það fer einnig eftir veðri og vindum.  Við erum búin að fá lánað fellihýsi hjá vinnufélaga.  Það verður bara frábært að reyna sig við slíkan lúxus.

Veiðistöng og bjór... þarf maður eitthvað fleira?


Já takk

Tvær vikur (nærri því) liðnar af fríinu.  Ég er búinn að hafa það eins og eggjarauða í eggi.  Fyrri vikunni eyddum við í bústað í Borgarfirðinum, núna eru það bara tærnar upp í loft og SLAPPAÐ AF.  Förum væntanlega á flandur um helgina, eða í byrjun næstu viku.

Ég ætlaði mér að taka mér frí frá fréttum í sumarfríinu en því miður hefur það ekki gengið eftir.  En ég stefni að því að bæta mig.


Stjórnarformaður Icelandair ósáttur: Á að fullkomna byltinguna og koma kommum að

Kommagrýlan er með ólíkindum sterk.  Hvern er verið að reyna að hræða með þessu ...fullkomna eigi byltinguna og kokma kommum að... ?

Af www.pressan.is

Íslandsbanki og Landsbankinn hafa farið fram á hluthafafund í Icelandair Group eftir verslunarmannahelgi, þar sem ætlunin er að skipta um stjórn í fyrirtækinu. Núverandi stjórnarformaður segir að fullkomna eigi byltinguna og koma kommunum að.

Icelandair Group sendi frá sér tilkynningu í gær til Kauphallar þar sem gerð er grein fyrir tillögum sem leggja á fyrir hluthafafundinn, t.d. um aukningu hlutafjár. Á fundinum er líka ljóst að skipt verði um stjórnarmenn, því þeir Gunnlaugur Sigmundsson stjórnarformaður og Einar Sveinsson fara ekki lengur fyrir raunverulegum hluthöfum í félaginu í kjölfar þess að Landsbankinn og Íslandsbanki gerðu veðköll í bréfum Finns Langflugs Finns Ingólfssonar, Samvinnutrygginga og félaga Engeyjarbræðranna Einars og Benedikts Sveinssonar og Milestonebræðra.

Gunnlaugur er harðorður í garð bankanna í Morgunblaðinu í dag og segir Íslandsbanka hafa óskað sérstaklega eftir hluthafafundinum og „stjórnarkjöri til þess að fullkomna byltinguna og koma kommunum að“, eins og hann orðar það.

Úr því Gunnlaugur tengir stjórnmál við þessa atburði í viðskiptalífinu og segir ætlunina að koma kommunum að í viðskiptalífinu, er ekki úr vegi að geta þess að hann er faðir Sigmundar Davíðs, formanns Framsóknarflokksins, og Einar Sveinsson er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband