Þorskur à la maison

Ég sá matreiðsluþátt um daginn.  Þar var boðið upp á gómsæta fiskrétti.  Ég lét heillast af því sem eldað var.  Svo ég þurfti að láta reyna á, breytti og bætti.

Þorskur úr austri.
Fyrir þrjá, tvo svanga og eina minna svanga.

7-800 gr. vænn þorskhnakki, skorinn í steikur
1/2 búnt kóríander, gróft saxað
6 væn hvítlauksrif fínt saxað (eða einn lítill hvítlaukur)
1 chillí, fínskorið
5 cm bútur af engifer, rifið niður með fínu rifjárni
2 challottu laukar, fínt saxaðir
tvær vænar skvettur af góðri sojasósu
Maldon salt og pipar
Isio 4 olía til steikingar
Hrísgrjón og gott salat sem meðlæti.

 Olía er snarphituð á pönnu.  Steikurnar steiktar á annarri hliðinni í eina mínútu.  Kryddað með salt og pipar (Maldon)  snúið við og öllu (fyrir utan kóríander) makað á fiskinn.  Snúið aftur eftir ca. þrjár og hálfa mínútu.  Soja sósunni helt yfir, kóríanderinn skellt á pönnuna þar á eftir og lok þar á eftir.  Látið steikjast (malla á háum hita) í 3-4 mínútur. 

Borið fram með góðu salati og hrísgrjónum.  

 


Stefnur flokkanna 2009 - gott að eiga... og sakar ekki að lesa

Ég ákvað að eiga stefnuyfirlýsingar flokkana.  Þegar ég var að copy/paste a af heimasíðum flokkana ákvað ég að skella þeim hér inn.  Enda örugglega ekki vanþörf á.  Lesum þetta  með opnum huga og skoðum hvað flokkarnir segjast standa fyrir.  Ég geri það allavegana, og það verður fróðlegt að rifja þetta upp eftir einhvern tíma.

Allur textinn er fenginn á heimasíðum flokkana, 22.04.2009.

Kosið verður 25.04.2009.

 

----------------------------- 

 Stefnuyfirlýsing Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs var samþykkt á stofnfundinum, 6. febrúar 1999. Frá upphafi var ákveðið að tvinna saman félagshyggju og umhverfisvernd eins og nafn flokksins ber með sér. Á landsfundi árið 2003 þótti ástæða til að bæta við stoðum undir starf Vinstri grænna í samræmi við þá umræðu og þá stefnu sem flokkurinn hafði tekið og á næsta landsfundi, árið 2005 var ný stefnuyfirlýsing samþykkt, þar sem búið var að bæta við kafla um kvenfrelsi annars vegar og alþjóðastefnu hins vegar. Þær stoðir sem flokkurinn hvílir á nú eru því fjórar: Hin hefðbundna vinstristefna, kvenfrelsi, umhverfismál og alþjóðahyggja, þannig sköpum við stjórnmálaafl sem er reiðubúið til að benda á lausnir við helstu samfélagsmálum sem við munum glíma við í framtíðinni. Stefnuyfirlýsingin er svohljóðandi:

 

graentflurlogo

STEFNUYFIRLÝSING VINSTRIHREYFINGARINNAR - GRÆNS FRAMBOÐS

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Hreyfingin er samstarfsvettvangur og baráttutæki þeirra, sem vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstrihreyfingin­ – grænt framboð vill binda enda á hersetu í landinu og aðild að hernaðarbandalagi, en leggur áherslu á að eiga gott og friðsamlegt samstarf við allar þjóðir, vernda náttúru og umhverfi landsins og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur sígildar áherslur vinstristefnunnar um jöfnuð og félagslegt réttlæti, róttæk umhverfisverndarsjónarmið og kröfur um sjálfbæra þróun eiga og verða að fara saman. Hvorugt fær staðist án hins þegar til framtíðar er litið. Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið á rétt þeirra sem á eftir koma. Á sama hátt felst það í heilsteyptri umhverfisverndarstefnu að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða. Verkefnið er að lyfta gildum raunverulegra lífsgæða, skapa samfélag réttlætis og jafnaðar í góðri sátt við lífríkið allt og móður jörð

Náttúra og umhverfi

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Atvinnuvegir og fyrirtæki þurfa að laga sig að kröfum um sjálfbæra þróun og vistvæn framleiðsluferli. Varðveita þarf hreinleika landsins í almannaþágu til frambúðar svo og til að treysta atvinnulíf og framleiðslu og sölu á hollum neysluvörum. Taka þarf upp græna þjóðhagsreikninga og meta verðmæti ósnortinnar náttúru. Skattkerfið á einnig að hvetja til umhverfisverndar.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð styður sjálfbæra orkustefnu og leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda mikilli röskun á náttúru landsins. Við viljum vernda hálendi Íslands og stofna þar til stórra þjóðgarða og friðlanda. Við gerum kröfu um víðtækan almannarétt í sátt við landið og fólkið í dreifðum byggðum. Lífríki landsins, landslag og jarðmyndanir þarf að vernda með heildstæðri löggjöf og skipulagi. Við styðjum vistvænar fiskveiðar og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á öfluga alþjóðlega samvinnu um umhverfismál og bindandi sáttmála svo að land okkar og jörðin öll verði góður bústaður til frambúðar. Vernd hafsins gegn mengun er úrslitaatriði fyrir Íslendinga. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stuðla að sem bestri samvinnu við samtök áhugafólks um umhverfisvernd og virkja almenning til þátttöku í að byggja upp vistvænt, sjálfbært samfélag í þágu núlifandi og óborinna kynslóða.

Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar

Vinstrihreyfingin - grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna. Aðstaða allra landsmanna verður að vera sem jöfnust, óháð búsetu og félagslegri stöðu. Við gerum kröfu um fullt jafnrétti til náms og jafnan rétt allra til opinberrar þjónustu, upplýsinga um samfélagsleg málefni og til virks tjáningarfrelsis. Félagslegt húsnæðiskerfi er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja velferð landsmanna. Skylt er að tryggja vaxandi hópi aldraðra mannsæmandi kjör og aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Gera verður átak til að stórbæta kjör og allar aðstæður öryrkja. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill auka þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Uppeldi og velferð barna er ábyrgð foreldra og virða þarf rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína.

Stöðu landsbyggðarinnar verður að styrkja með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum er undirstaða lífvænlegrar byggðar. Slíku verður ekki náð fram með einkavæðingu og einkarekstri í undirstöðuþáttum velferðarkerfisins, sem bitnar harðast á dreifðum byggðum. Skilgreina þarf hvaða undirstöðustofnanir samfélagsins eigi að lúta lýðræðislegum yfirráðum almannavaldsins.

Til þess að ná fram þessum markmiðum þarf að setja valdi fjármagns og markaðsafla skorður, tryggja réttláta tekjuskiptingu og lýðræðislega stjórnarhætti. Forgangsverkefni er að 40 stunda vinnuvika dugi til eðlilegrar framfærslu þannig að tryggja megi fulla atvinnu og rjúfa víta­hring lágra launa og vinnuþrældóms. Búa verður þannig um hnúta að allt verkafólk sem starfar á Íslandi njóti sömu kjara, hvaðan sem það kemur til að stunda hér vinnu sína.

Kvenfrelsi

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur að Ísland eigi að vera öflugur málsvari félagslegs réttlætis um allan heim. Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra - bæði kvenna og karla. Til þess að fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist þurfa karlar að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf.

Kynjafræði eiga að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu. Forsenda kynjajafnréttis er að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að lagfæra misréttið.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur mikilvægt að laun séu ákvörðuð með tilliti til þess sem leyst er af hendi en ekki því hvort karl eða kona vinnur verkið. Tryggja verður kynjunum jafna möguleika til framfærslu og viðurkenna að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Öflugt velferðarkerfi er ein af lykilforsendum kvenfrelsis. í slíku velferðarkerfi er ekki gert ráð fyrir ólaunaðri umönnun kvenna heldur er vinnuframlag þeirra innan kerfisins metið til launa.

Líkaminn má aldrei verða söluvara. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill að kynferðislegt sjálfstæði kvenna verði viðurkennt og telur að konur eigi skýlausan rétt til að ráða yfir eigin líkama, þar með talið að taka ákvarðanir um barneignir.

Stjórnvöld eiga að vera skuldbundin til að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi og þeim ber jafnframt að tryggja að kynferðisofbeldi sé meðhöndlað sem lögbrot og karlar kallaðir til ábyrgðar. Kynferðisofbeldi birtist m.a. í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðislegri áreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra.

Konur eru fátækasti hluti íbúa jarðar og stríð bitnar ekki síst á þeim og börnum. Brýnt er að veita konum öryggi, sýna þeim samstöðu og taka tillit til kynferðis við alla þróunaraðstoð. Viðurkenna verður mikilvægi kvenna í framþróun þriðja heimsins.

Samfélag og atvinnulíf

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfi og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Meginstoðir velferðarkerfisins eiga að heyra beint undir ríki og sveitarfélög. Efla þarf umræðu um siðferðisleg gildi í stjórnmálum og opinberu lífi. Auðvelda þarf aðgang að upplýsingum en jafnframt tryggja persónuvernd sem aldrei má fórna á altari tækniþróunar og viðskipta.

Leggja verður allt kapp á að bæta aðstöðu fjölskyldunnar og auka möguleika fólks með ung börn til samveru. Þannig má treysta bönd fjölskyldunnar, vinna gegn upplausn heimila og sókn ungmenna í fíkniefni. Draga verður úr tekjutengingu og jaðaráhrifum í skattkerfinu og almannatryggingum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill styrkja stöðu launafólks til að beita samtakamætti sínu í þágu kjara- og réttindabaráttu og til að hafa meiri áhrif á þróun samfélagsins en það hefur nú.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umhverfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.

Sjálfstæð utanríkisstefna, félagsleg alþjóðahyggja

Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála. Íslensk stjórnvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmarkanir á vígbúnaði. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Noðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Íslendingar eiga að stórauka framlög sín til þróunarstarfs og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Nauðsynlegt er að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill tefla félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa. Koma verður með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum í veg fyrir spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli. Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðasamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta til að tryggja félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi.

Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis.

 

----------------------------------------------------------

 

 

xd

 

 

Göngum hreint til verks

Nú eru umbrotatímar á Íslandi og  í heiminum öllum. Í umbrotum felast tækifæri  til að breyta viðteknum venjum þar sem við á og byggja á því sem gagnlegt er og varanlegt. Öflugt og heilbrigt atvinnulíf er frumforsenda þess að hægt sé að verja heimilin og grunnstoðir velferðar- og menntakerfisins. Ríkisútgjöld verða að dragast saman og nýta þarf fjármuni hins opinbera eins vel og frekast er unnt um leið og  standa þarf sérstakan vörð um hag öryrkja, eldri borgara og fjölskyldna. Þessi afstaða hvílir á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar um frelsi, framtak, mannúð og mildi.  Hlutverk nýrrar forystu Sjálfstæðisflokksins er að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun sem hefur tvennt að leiðarljósi: Að tryggja atvinnu og verja heimilin í landinu. 

Tryggjum atvinnu
Íslendingar mega aldrei sætta sig við að hér ríki atvinnuleysi. Við verðum nú þegar að snúa vörn í sókn. Við skulum tryggja að hér verði til allt að tuttugu þúsund ný störf á kjörtímabilinu auk þess að vernda þau störf sem fyrir eru. Þetta gerum við m.a. með því að:
•    Ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins innan þriggja mánaða. Eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og fjölskyldna er skilvirkt bankakerfi. Í endurskipulagningunni þarf að tryggja hagkvæma endurfjármögnun bankanna og aðgang að lánsfé fyrir atvinnulíf og heimili. Ljúka þarf samningum við erlenda kröfuhafa hið fyrsta. Útvíkka ber ramma peningastefnunnar til að mynda þannig að hún taki aukið tillit til þróunar helstu hagstærða, ásamt því að áhersla á fjármálastöðugleika verði aukin.
•    Afnema hið fyrsta höft á gjaldeyrisviðskipti og koma þannig í veg fyrir að íslenskt samfélag færist áratugi aftur í tímann. Haftastefna leiðir til spillingar og sóunar. 
•    Koma í veg fyrir að miðstýring og ríkisvæðing verði að ríkjandi skipan, eins og núverandi vinstristjórn virðist því miður telja eðlilegt. Slík ofstjórn grefur undan athafnafrelsi þjóðarinnar og þar með hagsæld hennar. Koma þarf í veg fyrir að leikreglum og grundvallargildum atvinnulífsins verði kollvarpað. Aukin óvissa í efnahagslífinu mun gera allt endurreisnarstarf erfiðara.
•    Hafna öllum nýjum sköttum á atvinnulífið og einstaklinga. Núverandi vinstristjórn hefur boðað nýja skatta sem draga þrótt úr fólki og fyrirtækjum. Hærri skattar munu reynast þeim  ofviða.
•    Skapa sátt um nýtingu auðlinda okkar og hefja þegar uppbyggingu orkufrekra atvinnugreina, svo sem gagnavera, álvera og annarra hátæknifyrirtækja. Lögð er áhersla á að ekki verði skilið í sundur á milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda landsins. 
•    Ráðast í tímabundnar breytingar á skattkerfinu sem hvetja til nýráðninga og þróunarstarfs sem sérstaklega á að gagnast nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

Verjum heimilin
Hér á landi er rík hefð fyrir því að fjölskyldur fjárfesti í sínu eigin húsnæði. Grípa verður til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur missi heimili sín vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika. Þetta gerum við m.a. með því að:
•    Íbúðareigendur muni geta lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti. Markmiðið er að laga greiðslubyrðina að greiðslugetu og auka sveigjanleika í afborgunum. Jafnframt verði hugað að höfuðstólslækkun lána til að mæta þeim forsendubresti sem orðið hefur í hagkerfinu.
•     Stefnt verði að því að í boði verði óverðtryggð lán og möguleikar á að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð,þegar verðbólga og vextir eru komin í viðunandi horf. Þetta sé gert í því augnamiði að auka valfrelsi og fjölbreytni í lánamálum á húsnæðismarkaði.
•    Öllum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um há- og millitekjuskatt er hafnað, enda bitnar hann iðulega mest á stórum fjölskyldum með þungar fjárhagslegar skuldbindingar. Ísland skattleggur sig ekki út úr vandanum.
•     Stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki og verði 5-6% undir lok þessa árs. Íslenskt atvinnulíf og heimili þola ekki hið háa vaxtastig.
•    Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðustu áratugi leitt uppbyggingu öflugs velferðarsamfélags. Forsendur þess eru öflugt atvinnulíf og að ríkissjóður sé rekinn með ábyrgum hætti. Ekki verður hjá því komist að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Berlega hefur komið í ljós að núverandi vinstristjórn er ekki fær um að taka þær erfiðu ákvarðanir. Í þeim nauðsynlega niðurskurði sem framundan er mun Sjálfstæðisflokkurinn taka tillit til hagsmuna þeirra sem mest eiga undir högg að sækja svo sem öryrkja, lífeyrisþega og efnaminni fjölskyldna – en dregið verður úr millifærslum til þeirra sem geta séð sér og sínum farborða. Grunnþjónusta velferðar- og menntakerfisins má ekki skaðast.

Göngum hreint til verks
Á þessum landsfundi höfum við Sjálfstæðismenn gert upp þá atburðarás sem leiddi til hruns bankakerfisins. Sú hreinskilna og opinskáa umræða birtist meðal annars í ályktun fundarins um endurreisn atvinnulífsins og í ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins við setningu fundar. Jafnframt komst fundurinn að niðurstöðu í viðkvæmum og mikilvægum pólitískum álitamálum.
Sjálfstæðisflokkurinn er þverskurður af þjóðinni, opinn og lýðræðislegur flokkur sem virkjar einstaklingana í landinu og ber virðingu fyrir þeim. Meginmarkmið okkar er að  vinna fyrir þjóðina og skapa betra samfélag sem byggist á  gagnsæi og trausti, jafnri stöðu kynjanna og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Frelsi og ábyrgð verða alltaf að fylgjast að og á grundvelli þessa ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að:

•    Læra af reynslunni og byggja meðal annars á því uppgjöri  sem hefur farið fram í endurreisnarnefnd sjálfstæðismanna.
•    Beita sér fyrir því að tryggðir séu nægir fjármunir og heimildir fyrir þá sem annast rannsóknir á orsökum bankahrunsins þannig að öruggt sé að þeir sem hafa brotið lög séu sóttir til saka og látnir taka afleiðingum gjörða sinna. Öðruvísi skapast ekki sátt um framtíðaruppbyggingu efnahags þjóðarinnar.
•    Setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.
•    Verja sjálfstæði þjóðarinnar og  tryggja yfirráð yfir auðlindum Íslands. Við teljum að við núverandi aðstæður sé hagsmunum þjóðarinnar best borgið utan Evrópusambandsins. Við viljum að Íslendingar séu virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu en þróun slíkrar samvinnu á ekki að vera einkamál stjórnmálaflokkanna. Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna. Niðurstaða úr hugsanlegum viðræðum við Evrópusambandið skal borin undir þjóðina.
Björt framtíð bíður Íslands lánist okkur að halda rétt á málum. Nýta þarf það  afl sem býr í fólki og fyrirtækjum og tryggja heimilunum í landinu þannig fjárhagslegt öryggi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið meginstoð íslenskra stjórnmála í  80 ár. Sjálfstæðisstefnan byggist á krafti, frumkvæði og dugnaði fólksins í landinu. Framtak og velferð verða hornsteinar sjálfstæðisstefnunnar hér eftir sem hingað til.

Treysta má því að gengið verður hreint til verks.

*Ofangreindur texti er úr stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2009 en á landsfundum flokksins eru stefnumál hans mótuð.

--------------------------

xS

 

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009

Mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar er að tryggja aukna verðmætasköpun, atvinnu og velferð.

Íslenska þjóðin stendur á tímamótum. Að baki er hrun bankakerfisins og skipbrot efnahagsstefnu misskiptingar og sérhyggju. Við glímum einnig við afleiðingar verstu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir heiminn í tæpa öld.
Við þessar aðstæður veitir jafnaðarstefnan ein þau svör sem duga. Jafnaðarmenn hafa lagt grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlanda og tryggt meiri jöfnuð og betri samkeppnishæfni atvinnulífs en annars staðar þekkist.

Samfylkingin leggur áherslu á að jafnaðarstefnan verði það leiðarljós sem lýsi efnahagsstjórn okkar á næstu árum. Gætt verði fyllsta réttlætis við uppbyggingu efnahagskerfisins. Hagsmunum Íslendinga eftir kosningar 2009 verður best borgið með félagshyggjustjórn sem sækir um aðild að ESB og leggur samning í dóm þjóðarinnar.

Efnahagslíf og umbreyting stjórnkerfis
Treysta þarf stoðir efnahagslífsins með almennum aðgerðum sem tryggi almannahag en hygla ekki sérhagsmunahópum. Sú grunnregla jafnaðarstefnunnar að þeir sem þurfi eigi að njóta fyrirgreiðslu á að vera leiðarljós í aðgerðum til að létta skuldsettum fjölskyldum leið út úr núverandi erfiðleikum.

Í endurreisn atvinnulífsins þarf að tryggja að rekstrarhæf fyrirtæki fái nauðsynlegt fjármagn til rekstrar. Þar megum við engan tíma missa. Ríkið þarf að taka með gagnsæjum hætti á skuldamálum fyrirtækja og tryggja jafnræði í meðferð sambærilegra mála. Þannig verða almannahagsmunir best tryggðir við endurreisn efnahagslífsins.
Allar aðgerðir til að brúa tímabil erfiðleika fyrir fyrirtæki og heimili verði ábyrgar og markvissar svo hér skapist hagstæð skilyrði til hagvaxtar, niðurgreiðslu skulda  og upbyggingar um leið og komist er yfir erfiðasta farartálmann. Að samhliða aðgerðaráætlun liggi fyrir skýr framtíðarsýn í grundvallaratriðum á borð við peningastefnu, framtíðargjaldmiðil og umgjörð efnahagslífsins í endurreisninni.

Efnahagsleg endurreisn þarf að haldast í hendur við opnara og lýðræðislegra stjórnkerfi. Pólitísk afskipti af mannaráðningum hjá hinu opinbera hafa veikt stjórnkerfið og grafið undan sjálfstæði faglegrar stjórnsýslu. Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum, rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna og gera kleift að breyta stjórnarskrá með samþykki þings og þjóðar, án þingkosninga. Samfylkingin leggur áherslu á að boðað verði til stjórnlagaþings sem sett verði eigi siðar en 1. desember 2009, eins og lagt er til í stjórnarfrumvarpi fyrir Alþingi. Fulltrúar þjóðarinnar munu sitja stjórnalagaþing og gera tillögu að nýrri stjórnarskrá sem síðan verður lögð í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eftir bankahrunið lagði Samfylkingin höfuðáherslu á að Íslendingar gættu að samskiptum við nágrannaríki og segðu sig ekki úr lögum við alþjóðasamfélagið. Lítið land í vanda, sem á afkomu sína undir milliríkjaviðskiptum, getur ekki virt að vettugi almennar leikreglur í samskiptum ríkja. Með samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn tókst að leggja grunn að efnahagslegri endurreisn landsins í samvinnu við nágrannaríki. Viðsnúningur í efnahagsmálum byggir framar öðru á traustum aðgangi að erlendum mörkuðum og góðu orðspori Íslands erlendis.

Evrópa
Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að skapa þjóðarsátt um ábyrga efnahagsstjórn.

Liður í því er að hefja sem fyrst aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja að þeim loknum samningsniðurstöðu fyrir þjóðaratkvæði. Að viðræðum við ESB skal koma samráðshópur hagsmunaaðila, þar á meða fulltrúar atvinnuveganna og launafólks, samtaka sveitarfélaga og umhverfis- og jafnréttissamtaka.

Samfylkingin mun í viðræðum tryggja grundvallarhagsmuni atvinnuveganna, sérstaklega íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, og standa vörð um náttúruauðlindir landsins. Hún mun hefja þegar í stað undirbúning að gjaldmiðlaskiptum.

Umsókn um aðild að ESB og undirbúningur að upptöku Evru mun styrkja efnahag heimilanna og fyrirtækja í landinu þar sem gengi krónunnar er líklegt til að styrkjast og vextir að lækka vegna bættra lánskjara landsins erlendis.

Staða heimilanna mun batna verulega með Evrópusambandsaðild þar sem matvælaverð, vaxtagjöld og almennar neysluvörur munu lækka auk þess sem verðtrygging leggst af með upptöku nýs gjaldmiðils. Full þátttaka í samstarfi Evrópuríkja mun auk þess tryggja áframhaldandi ferðafrelsi, aðgang að menntastofnunum og vísindasamstarfi og aðgengi að stærsta vinnumarkaði og markaðssvæði heims. Aðild að Evrópusambandinu er lýðræðismál sem mun bæta réttarstöðu launafólks og minnihlutahópa og styrkja öryggi þjóðarinnar.

Samfylkingin mun beita sér fyrir því að aðild feli í sér uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni með þátttöku í byggðastefnu sambandsins og tryggja aðkomu sveitarfélaga að ákvaðanatöku um mál sem þau varða. Evrópusambandsaðild mun leiðrétta þann lýðræðishalla sem EES-samningurinn felur í sér og tryggja aðkomu Íslendinga að setningu allra laga sem gilda á landinu.

Atvinna
Mótuð verði heildstæð sóknarstefna fyrir íslenskt atvinnulíf með það að markmiði  að Ísland verði komið í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heims fyrir 2020. Ráðist verði í sérstakt átak til að kortleggja sóknarfæri Íslands á sviði vistvænnar atvinnustarfsemi og umbreytingu atvinnustarfsemi í átt að grænu hagkerfi.

Hrint verði í framkvæmd áætlunum ríkisstjórnarinnar um allt að 6000 ný störf í byggingariðnaði, nýsköpunar- og sprotageirum, ferðaþjónustu og menningar-greinum, sjávarútvegi, orkufrekum iðnaði og fleiri greinum.
Jafnframt því mun Samfylkingin beita sér fyrir fjölþættu atvinnuátaki um land allt sem felur í sér að lítil, meðalstór og ný fyrirtæki fái stuðning Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar til að ráða tímabundið starfsmenn í atvinnuleit; forgangsröðun nýrra framkvæmda verði með þeim hætti að áhersla verði á mannaflsfrekar framkvæmdir, s.s. í byggingaiðnaði og samgöngubótum.  Þá verði við úthlutun fjármagns úr opinberum sjóðum tekið sérstakt tillit til verkefna sem hafa í för með sér fjölda nýrra starfa; reglum LÍN verði breytt til að auðvelda þeim sem vilja hefja nám í stað virkrar atvinnuleitar að fá námslán til framfærslu og loks verði framboð náms á framhaldsskólastigi aukið yfir sumartímann og verknámsaðstaða framhaldsskólanna nýtt fyrir þá námsmenn sem ekki fá sumarstörf en vilja bæta menntun sína.

Velferð
Samfylkingin leggur ríka áherslu á velferð fjölskyldunnar, að standa vörð um heimilin og heilbrigt líf.

Í ríkisstjórn hefur Samfylkingin lagt áherslu á að rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og setja af stað aðgerðaáætlun um málefni barna og auka þannig stuðning samfélagsins við börn og barnafjölskyldur. Velferðarumbætur Samfylkingarinnar leiddu til þess að persónuafsláttur, barnabætur og vaxtabætur voru hækkaðar, til hagsbóta fyrir þá tekjuminni, og lífeyrisþegum tryggður verðtryggður lífeyrir. Þeir sem minnst hafa milli handanna búa nú að velferðarumbótum Samfylkingarinnar frá undanförnum árum.

Mikilvægasta verkefni velferðarkerfisins við núverandi aðstæður er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna. Tryggja þarf jafnan rétt og aðgengi að lífsgæðunum sem samfélagið býður upp á. Markmiðið er að tryggja að engar fjölskyldur búi við fátækt.

Mikilvægt er að allir hafi möguleika á öruggu húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína.  Bregðast þarf við skuldavanda heimilana og tryggja þeim nauðsynlegan stuðning til að mæta þeim tímabundnu áföllum sem nú blasa við.  Velferðarbrú heimilana verður að aðlaga greiðslubyrði aðstæðum hvers og eins og afskrifa skuldir þar sem það er nauðsynlegt. Þá þarf að tryggja lágmarksframfærslu hvers einstaklings þar sem tekið er tillit til tekna, eigna og skulda.

Áhersla verði lögð á heilsueflingu sem forvörn gegn sjúkdómum og leið til að auka lífsgæði fólks. Markmið allra endurbóta á heilbrigðs- og almannatryggingakerfinu á að vera jöfnuður, gott aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni.

Kvenfrelsi og kynjajafnrétti
Kynjajafnrétti og kvenfrelsi er ein af grunnstoðum jafnaðarstefnunnar. Í orðunum felst ekki eingöngu að karlar og konur hafi jafnan rétt að lögum heldur einnig að kynin hafi jafna möguleika á að nýta sér rétt sinn. Samfylkingin lýsir yfir skýrum pólitískum vilja til þess að koma á fullu jafnrétti kvenna og karla og mun áfram axla ábyrgð á framgangi þess innan stjórnkerfis og þings. Til þess mun hún samþætta jafnréttissjónarmið inn í stefnumótun á öllum sviðum og fela forsætisráðherra þá ábyrgð að fylgja henni eftir.

Menntun og menning
Menningin er allt í senn vaxandi atvinnugrein, aflvaki nýsköpunar, undirstaða lífsgæða og uppspretta fyrir samkennd þeirra sem landið byggja.  Efnahagsaðstæður okkar nú kalla á ný og fjölbreytt störf. Fáar ef nokkrar atvinnugreinar á Íslandi gefa af sér jafnmörg afleidd störf  eins og menning og listir. Það er því beinlínis þjóðhagslega hagkvæmt að blása til sóknar á þessu sviði.

Menntun er einn af lykilþáttum í þroska og hamingju einstaklingsins jafnframt því sem hún er grunnur að efnahagslegu sjálfstæði hvers og eins. Forsenda fyrir endurreisn og nýsköpun er samstarf menntastofnana og atvinnulífsins. Samfylking vill standa vörð um gott menntakerfi sem býður öllum upp á fjölbreytta og góða menntun frá leikskóla til háskóla óháð atgervi, efnahag, uppruna og búsetu. Niðurskurður til menntamála verði ekki flatur, heldur forgangsraðað í þágu barna og ungmenna sem og þeirra sem lakast standa á vinnumarkaði.

Umhverfi og auðlindir
Stjórnarskrá lýðveldisins þarf að breyta svo að hún verði grundvöllur umhverfisverndar til framtíðar. Viðfangsefni jafnaðarmanna um allan heim er að tryggja jafnrétti kynslóðanna til auðlindanýtingar. Ísland á að vera í fararbroddi umhverfisstarfs á alþjóðlegum vettvangi hvort heldur er í loftslagsmálum eða við nýtingu jarðvarma.

Stór skref hafa verið stigin í umhverfis- og náttúruvernd á liðnum misserum en enn er verk að vinna. Aðgerðaáætlun til langs tíma um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda er forgangsmál stjórnvalda. Skipulagsáætlanir ber að nýta sem tæki til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar.

Græn atvinnustefna á að vera markmið stjórnvalda sem jafnframt þurfa að stefna að því að Ísland verði fyrst þjóðríkja til að nota eingöngu hreina innlenda orku til húshitunar, í atvinnulífinu, þ.m.t. fiskveiðum og í samgöngum innanlands.

Að Þjórsárver verði friðuð í samræmi við tillögu að náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009-13 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Að Rammaáætlunar um nýtingu og verndun náttúrusvæða verði lögð fyrir Alþingi veturinn 2009-2010 og hún fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Tryggt verði að mikilvægum svæðum verði ekki raskað á meðan unnið er að heildstæðri flokkun allra nýtingarkosta.

Stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann feli í sér Langasjó og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum og ósnert eldvirkt svæði á milli Vatnajökuls og Mýrdalsjökuls.

Að ljúka gerð aðgerðaætlunar með tímasettum og tölusettum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 50% fyrir 2050.

Verðleggja losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og tengjast viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir eins og fljótt og unnt er.

Beita hagrænum hvötum og öðrum áhrifaríkum aðferðum til að minnka notkun jarðefnaeldsneytis með það að markmiði að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti.  Slíkir hagrænir hvatar eiga að miða sérstaklega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum hér á landi.

Vegna staðfastrar andstöðu meðal þjóðarinnar við einkavæðingu fiskistofna stefna stjórnvöld nú loks að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum.

Landsfundur Samfylkingarinnar fagnar þessum áformum en leggur þunga áherslu á að stjórnarskrárbundin þjóðareign auðlinda sjávar leggi þá ótvíræðu skyldu á herðar Alþingis að leysa þann eignarhaldsvanda sem frjálst framsal aflaheimilda hefur skapað.

Markmið ákvæðis um þjóðareign hlýtur að vera að tryggja  þjóðinni arð af  fullu eignarhaldi og yfirráð sjávarauðlinda til framtíðar. Jafnskjótt gildistöku slíks ákvæðis er því óhjákvæmilegt að fullgilda sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar með því að afmarka veiðirétt og tryggja jafnræði til nýtingar veiðiheimilda með leigu þeirra á markaði.
Jafnframt er því eindregið beint til stjórnvalda að þau hlutist til um að þar til ný stefna taki gildi ráðstafi fjármálastofnanir á vegum ríkisins ekki aflaheimildum án þess setja skýra fyrirvara um endurskoðun slíkra samninga  til samræmis við þá stefnu sem að framan er lýst.

Forysta til framtíðar
Samfylkingin vill hafa forystu um að sameina þjóðina um þær mikilvægu ákvarðanir sem framundan eru. Það verður best gert á grundvelli lýðræðislegra vinnubragða og gilda jafnaðarstefnunnar, um samábyrgð og samhjálp, jöfnuð og frelsi.

Kópavogi 29. mars 2009

------------------------------------------

xB

Stefnumál Framsóknarflokksins eru hér sett fram með þrennum hætti:

Grundvallarstefnuskrá flokksins er kjarninn í stefnu flokksins - eða það leiðarljós sem önnur stefnumótun byggist á. Hún er ekki endurskoðuð á hverju flokksþingi, en það var síðast gert 2001 og þar áður 1987.

Í ályktunum flokksþings (sjá tengil til hægri) er að finna ítarlegri stefnu í einstökum málaflokkum. Flokksþing endurskoðar þá stefnu annað hvert ár. Síðasta flokksþing var haldið í janúar 2009 og það næsta verður að óbreyttu fyrri hluta árs 2011.

Í kosningastefnuskrá er að finna þær áherslur sem flokkurinn setur fram í kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar og gilda um komandi kjörtímabil. Þar sem flokkurinn starfar ekki í ríkisstjórn er ólíklegt að þau sjónarmið sem sett voru fram í kosningastefnuskrá 2007 nái fram að ganga á kjörtímabilinu.

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001

------------------------------------------------------------

 

 

 

 


Er munur á kúk og skít

Guðlaugur Þór vill meina það að það sé ekki munur á 2.000.000 og 20.000.  Það sé hægt að ásaka báða um að þiggja mútur. 

Í mínum augum er töluverður munur á þessu tvennu.  Það er munur kúk og skít.

Vinstri grænn

Páll Baldvin er ómetanlegur.  Hraunar yfir allt og allt, bara af því hann er á túr.  Snillingur.  Kolbrún Bergþórsdóttir er engu síðri.  Frábært par. Er að horfa á Kiljuna.

Ég hef talið mig pólitískt viðundur.  16 ára var ég sjanghæjaður í FLokkinn fyrir tilstuðlan afa, Sigga blinda.  Seinna sagði ég míg úr þeim félagsskap.  Eftir það hefi ég ekki verið flokksbundinn, en duglegur við að flakka og kosði það sem hugurinn býður.  Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn, Alþýðuflokkinn,  Framsókn og Samfylkingu.

Ég horfði á borgarafundinn í sjónvarpinu.  Sannfærðari en áður um hvað ég ætla að kjósa.  Vinstri Grænir er það heillin.

 

 


Nýtt fólk . . . sama stefnan


Mismæli?

Eftir að hafa heyrt Bjarna Benediktsson fara fram á að "hugtakið náttúruauðlindir í þjóðareign verður tekið út [úr Stjórnarskránni]", er ég sannfærður um að Sigurður Kári mismælti sig ekki á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um daginn:


Hvað eru tveir þrír milljarðar, og hvað munu þeir gera?

Er að horfa á Silfrið.  Góður þáttur og farið um víðan völl.

Farið inn á stjórnlagaþing og skattamál.

Sjálfstæðismenn eru á móti stjórnlagaþingi, beita meðal annars þeim rökum að það kosti ALLT of mikið.  Einn milljarð, jafnvel einn og hálfan.  (Reyndar féll svo gríman þeirra og ástæðurnar eru augljósar).

Ólafur Þ. Stephensen ritstjóra morgunblaðsins (var það starf ekki einusinni á við ráðherraembætti?) gerir lítið úr hugmyndum um aukinn fjármagnstekjuskatt, það myndi þó skila 3-4 milljörðum króna.  Það er nú slatti ofan á brauð og jafnvel tvö stjórnlagaþing.


Einn segir eitt á meðan annar segir annað

Sá þetta á Pressunni áðan, þar segir Bjarni Benediktsson;

Vill enginn ræða framtíðina?

Rétt áður rak ég augun í þetta á Vísi.is, en þar segir að Björn Bjarnason:

Hann myndi flytja eins margar ræður og hann þyrfti til að koma í veg fyrir það. Heiður Alþingis væri í húfi.

Gaman eredda.


Páskadagur

Fallegur dagur, vorum vöknuð snemma, ekki annað hægt.  Hef graðkað í mig páskaeggi, eins gott að viðhalda orkubúskapnum.  Reyndar er hann í ójafnvægi þessi misseri, hef lagt allt of mikið inn.

Málshátturinn sem kom úr egginu var viðeigandi á þessum síðustu tímum:  Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Hlustuðum á Sigga bróðir i útvarpinu áðan.  Fékk þar fínasta plögg fyrir Haffara, fyrirtæki hans og Sigþóru.  Vona að það verði nóg að gera hjá þeim.


Lífið er fallegt

Þetta er búið að vera dásamlegt frí.  Við buðum þeim Tobbu og Gísla í mat til okkar á skírdag.  Eldað gæsabringur sem við gæddum okkur á og supum á ágætis vínum með.  Sátum svo frameftir öllu og kjöftuðum.  Áttum góða kvöldstund saman.  hlynur.jpg

í gær átti bestibróðir í heimi afmæli, hann var bara svo upptekinn með börnunum að ég gat ekkert trubblað hann, lét duga símtal. 

Við vorum vöknuð klukkan átta í morgun, enda ekki hægt að sofa þegar sólin vekur mann með kossi.  Tókum okkur til og gerðum skurk í sameigninni, þvoðum glugga og fleira.  Ég þreif svo bílinn seinnipartinn.  Hann þarf nú samt að fá hjá okkur góða meðferð.  Svona allsherjarvorhreingerningu.

Páskalamb á morgun hjá mömmu.  

Life is beautiful.

 

 

 Hlynur Kristjánsson - afmælisbarn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband