Vangaveltur

Ég á ekkert í þessu.  Fékk póst rétt áðan og gat ekki stillt mig.

Þessi hljómsveit er nýbúin að skipta um söngvara en að öðru leyti er hún eins. Lagið er líka alltaf eins.

Hljómsveitin Íhaldið er úr Reykjavík. Hún hefur gefið út nokkrar plötur en einhverra hluta vegna er það bara þetta eina lag sem náð hefur einhverjum vinsældum meðal áhangenda hennar.

Íhaldið er því nokkuð skýrt dæmi um það sem kallað er "one hit wonder" í bransanum.

Önnur lög hljómsveitarinnar hafa einhvern veginn alveg fallið dauð niður og vakið litla hrifningu.

Þetta eru lög eins og "Tæknileg mistök", "Hlerum, hlerum", "Bombum Írak", "Þegar ég vaknaði um morguninn og Varnarliðið var farið" , "Rándýra Ísland", "Biðröðin við Mæðrastyrksnefnd", "Ég missi ekki svefn út af misskiptingu", "Bush var vinur minn", "Sætasta stelpan á ballinu," "Verðbólgudraugurinn gengur aftur", "Þenslan er komin", "Hæstu vextir í heimi", "Við þurfum enga stefnu (því við erum bara við, gamla Íhaldið...)", "Ó, Friedman!", "Hver er þessi Whole Foods?", "Saman á ný í herbergi - óður til aldaðra", "Muniði Falun Gong?", "Mér var víst mútað af Baugi", "Ég skipa þig í Hæstarétt, vinur", "Aldrei fór ég til Kárahnjúka", "Kolkrabbabúggí", "Fjölmiðlalögin (syrpa)" og síðast en ekki síst "Keyrum upp húsnæðisverð með 90% lánum og breytum þeim svo aftur í 70%, hey!"

Þetta síðasta var arfaslakt -- um það eru flestir sammála, bæði gagnrýnendur og almenningur -- en það má segja það Íhaldinu til málsbóta að það var samið af upphitunarhljómsveitinni.

Eitt uppáhaldslagið mitt, persónulega, um þessar mundir með Íhaldinu er hin hugljúfa ballaða "Hvers vegna ert aldrei kjur?" sungin af Selfosshnakkanum Árna Matthíesen, draumkennd vangavelta um krónuna, stöðugleikann og efnahagslífið almennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband