Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Rjúpnaveiðar og fleira
Rjúpnaveiðitímabilið hófst fyrir rúmri viku síðan. Strax fyrsta daginn gekk ég til rjúpna. Sá þá eitt stykki en aðeins og seint. Eins kom ég augu á endur, en þær komu ekki í færi. Dagurinn var frábær og þá strax hlakkaði ég til næstu helgar.
Ég og sjúkraþjálfarinn minn erum ekki alveg par sáttir við bakið á mér. Það er lítið að koma til. Mér finnst eins og það sé bakslag í þessu. Síðasti tími hjá honum var langur. Hann endaði á því að setja mig í strekkbekk til að teygja aðeins á mér. Ég var eins og ræfill á eftir. Ég get þó gengið sæmilega uppréttur en langt í frá verkjalaus.
Á föstudaginn var James Bond þema hjá okkur í sölu- og markaðssviði VÍS. Mikið um dýrðir og var þetta frábær uppákoma sem endaði svo með örlitlum bjór og keilu. Við skemmtum okkur konunglega.
Þessi helgi er búin að vera fín. Í gær tókum við því eins róleg og mögulegt er og gerðum afskaplega lítið. Það var gott.
Í dag brunaði ég svo austur á Flúðir og gengum við svili minn til rjúpna með engum árangri. Sáum ekki einn einasta fugl. Það gerði svo sem lítið til því aðal tilgangurinn var að viðra hundinn Zorro... eða þannig.
Ég er enn á því að reyna að veiða rjúpur í jólamatinn, vonandi gengur það, hef þrjár helgar til að ná markmiðinu. Er með einhverja staði í sigtinu. Jafnvel að fara vestur í Djúp.
Nú er bara að bíða næstu helgar. Vonandi snjóar dálítið, sérfræðingarnir segja að þá komi hún neðar og verði ekki eins stygg.
Þessa flottu mynd af rjúpukarra fann ég á síðunni aves.is Ljósmyndarinn heitir Jakob Sigurðsson.
Athugasemdir
Sæll.
Á ágæta mynd af rjúpum sem vissu greinilega hvar þær áttu að vera til að vera ekki fyrir barðinu á einhverjum misjöfnum veiðimönnum.
Get víst ekki sent þér hana svona, svo þú færð hana í "ímeil"
Jónas Egilsson, 11.11.2008 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.