Strútur

Þá er hugmynd að haustgöngunni fædd.  Þórólfum líst, eftir því sem ég best veit, nokkuð vel á þessa hugmynd.  Það á eftir að ákveða dagsettningar endanlega, en það kemur.

Það er einn hængur á.  Hólaskjól, er ekki í alfaraleið.  Hægt er að koma sér þangað með áætlunarrútu frá BSÍ.  Hún leggur af stað úr bænum klukkan 08:30 og er ekki kominn í Hólaskjól fyrr en um klukkan 17:00.  Þetta erferð með tveggja tíma stoppi í Landmannalaugum og þriggja kortera stoppi við Eldgjá

Ég fann fínustu leiðarlýsingar á heimasíðum  Ferðafélags Íslandas og Útivistar.

Dagur 1

Brottför frá BSÍ kl. 08:30. Ekið austur fyrir fjall í Hólaskjól þar sem gangan hefst. Fyrsta dagleiðin er stutt um 6-7 km og hentar prýðilega eftir langa rútuferð (erum ekki kominn í Hólaskjól fyrr en um klukkan 17:00 ef við tökum áætlunarrútuna eins og fyrr segir). Í fyrstu liggur leiðin upp með Syðri-Ófæru hjá hinum nafnlausa fossi sem oft er nefndur Silfurfoss eða jafnvel Litli-Gullfoss.  Þaðan áfram um tilkomumikið gljúfur að gamla gangnamannaskálanum við Álftavötn sem Útivist endurbyggði. Svæðið í nágrenni skálans er mjög fallegt, svo að það er vel þess virði að skoða sig um og fara í kvöldgöngu. 

Skálinn við Álftavötn.

Dagur 2

Syðri-Ófæru er fylgt framan af.  Farið er hjá mikilli steinbrú er liggur yfir ána við Þorsteinsgil.  Dalverpið sem blasir þar við heitir Álftavatnakrókur og er farið að mynni Ófærudals.  Fossar steypast fram úr dalnum og ofan í Krókinn, en þarna mætir Eldgjáin einnig gönguhrólfum en hún liggur þvert á Ófærudal.  Sveigt er til vesturs og haldið undir hömrum girtum hlíðum Svartahnúksfjalla, fjallabálks er setur mikinn svip á umhverfið. Síðan liggur leiðin með norðurhlíðum þeirra inn í Hólmsárbotna og að Strútslaug. Gott er að fara í bað í heitri lauginni. Þarna gnæfir Laugarháls og Torfajökull með sínar litskrúðugu líparíthlíðar yfir í norðvestri, Svartahnúksfjöllin í austri og Strútur í suðri. Eftir baðið er gengið yfir Skófluklif eða um Krókagil, en þá er aðeins spottakorn eftir í Strút þar sem höfð er næturdvöl. Þessi dagleið er um 20 km.

Skálinn við Strút.

Dagur 3

Farið vestur yfir Veðurháls með Mýrdalsjökul á vinstri hönd.  Gengið eftir Mælifellssandi, hjá Hrútagili og Skiptingaöldu. Leiðin liggur um Slysaöldu og þaðan yfir Kaldaklofskvísl, sem liðast um sandinn í lænum.  Gengin er gömul gata á milli Einstigsfjalls og Sléttafells og komið að Hvanngilshnausum.  Þá liggur leiðin í skála í Hvanngili þar sem gist er síðustu nóttina.  Þessi dagleið er um 18 km.

Skálinn í Hvanngili.

Dagur 4

Morgunganga og heimferð.  Tja... eða....

Það má líka breyta aðeins til og lengja leiðina um eins og tvo göngudaga og enda í Húsadal í Þórsmörk.  Þá yrði framhaldið svona.

Dagur 4

Frá Hvanngili er fljótlega komið að Kaldaklofskvísl. Á henni er göngubrú. Austan kvíslar skiptast leiðir, annars vegar austur Mælifellssand (F 210) og hins vegar suður Emstrur (F 261), þangað sem leið okkar liggur. Innan við kílómetra frá Kaldaklofskvísl þarf að vaða aðra á, Bláfjallakvísl. Eftir u.þ.b. 4 km göngu er komið að Nyrðri-Emstruá. Brú var byggð yfir hana 1975. Framundan eru Útigönguhöfðar tveir. Á milli þeirra liggur leið okkar. Nú líður ekki á löngu þar til við stöndum á brúninni ofan skálans í Botnum. Þessi dagleið er um um 10 km.

Skálinn í Emstrum.

Dagur 5

Þar sem Syðri-Emstruárgljúfrið nær langleiðina inn að Entujökli verðum við að byrja á því að taka á okkur talsverðan krók áður en hin eiginlega ganga suður Almenninga hefst. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruánni. Farið varlega. Við ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá er sjálfsagt að ganga fram á gljúfurbarminn. Nú hefst hin eiginlega ganga suður Almenninga. Land breytist þegar komið er fram í Úthólma suður við Ljósá. Þar rennur áin í fallegu gljúfri sem víða er vaxið birki og blómum. Sunnan Kápu er Þröngá næst okkur. Hana verður að vaða. Sjálfsagt er að ganga hönd í hönd og hleypa undan straumi. Þröngá skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Þaðan er um fjörtíu mínútna gangur í Húsadal.  Ætli það verði ekki að hlaupa síðustu metrana til að ná rútunni sem fer úr Húsadal klukkan 15:30. Nú eða gista þar, fara í gufu og/eða heitan pott, grilla og hafa það gott og taka svo rútuna daginn eftir.  Þessi dagleið er um 17 km.  Rútan gengur úr Húsadal tvisvar á dag klukkna 08:30 og 15:30.

Á heimasíðu Austurferða er ýmis fróðleikur um Húsadal.

Þetta komum við til með að ganga í haust.  Ég get ekki annað sagt en ég hlakki til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband