Mánudagur, 18. febrúar 2008
Hlutabréfamarkaðurinn - hvernig verður maður ríkur?
Þessari spurningu hafa væntanlega flestir, ef ekki allir spurt sig að. Sumir gera eitthvað í því og tekst jafnvel að komast í þokkalegar álnir á meðan flestir láta sér nægja að dreyma um það.
Í raun er þetta ekki flókið, alls engin geimvísindi, en til að verða ofsaríkur á stuttum tíma þurfa menn að beita öllum klækjum og trixum sem til eru og einnig að vera gráðugir og graðir í að ota sínum tota.
Eitt ráðið er að komast yfir ráðandi hlut í gamalgrónu og virtu fyrirtæki sem nýtur traust meðal almennings og eins erlendis. Það getur tekið nokkur misseri, klæki og pot til að komast yfir það, en það er þess virði að leggja töluvert á sig til þess.
Þegar maður er búinn að koma sér vel fyrir sem stjórnarformaður í þessu gamalgróna og virta fyrirtæki er um að gera að sáldra í kring um sig þóknanlegu fólki sem situr og stendur eins og þú vilt. Þú notar orðspor og traust þessa fyrirtækis til að kaup hluti í öðrum fyrirtækjum. Nægjanlega stóra hluti til að ráða einhverju í þeim. Síðan ferðu að láta þessi fyrirtæki kaupa og selja hvort öðru og skapar þannig glimrandi stemningu þannig að utanaðkomandi fara að sýna því á huga að kaupa líka í þeim. Þegar boltinn er farinn að skoppa hátt og mikið skiptir þú gamla og gróna fyrirtækinu upp, skilur það frá fjárfestingaarmi" þess. Þú ert hvort sem er búinn að mjólka það inn að beini og það er eitt flakandi sár eftir þig. Þú selur það en heldur Group félaginu sem þá er á góðri leið með að verða RISI á markaðnum.
En í upphafi skal endinn skoða. Þú verður að semja vel fyrir þig í upphafi. Það þýðir ekkert að vera með nein lúsarlaun. Átta stafa tala er þér þóknanleg, nánast allt undir því er varla til umræðu. Einnig er gráupplagt að semja um vænan startpakka, svona til að koma þér í djobbið. Til að tryggja sig enn betur eru ýmis ráð í boði. Kaupréttasamningar eru mjög vinsælir og ætti í raun ekki að vera spurning um slíkt. Það gleður guma að geta keypt hlutabréf á hlægilega lágu gengi þegar gengi þess er í hæstu hæðum og selt þau jafn harðan. Þetta tekur ekki nema brot úr degi en geta skilið eftir mörg hundruð milljónir í vasanum þínum. Kaupréttarsamningar eru því málið. Til að hafa allt á hreinu strax í upphafi semur þú við stjórnina, sem ætti nú að vera auðvelt, um væna upphæð, þegar og ef, til starfsloka kemur. Nokkrar kúlur þar, takk fyrir. Svo er náttúrulega sjálfsagt að vera með galopinn risnureikning, svona til að mæta óvæntum útgjöldum.
Þeir sem eru alveg með þetta á hreinu eru með sitt eigið eignarhaldsfélag. Lítið skúffufyrirtæki sem er notað til að skapa stemningu í öðrum félögum. Þetta er ísí monní. Og lítil áhætta á ferðum. Þú lætur nefnilega félögin sem litla eignarhaldsfélagið þitt hefur fjárfest í kaupa hlutabréfin til baka og alls ekki á sama gengi. Þarna getur þú stjórnað gengi bréfanna sjálfur og safnar peningum í tank eins og Jóakim Aðalönd.
Þegar þessu öllu er lokið hefst vinnan fyrir alvöru. Hún felst aðallega í því að slá um sig í fjölmiðlum. Kaupa sér dýr og falleg einbýlishús rífa þau og byggja í staðinn ennþá stærri og glæsilegri hús. Því næst verður þú að kaupa næsta hús við hliðina og rífa það líka svo þú getir verið með almennilegt bílastæði fyrir alla bílana þína. Vinnan fellst einnig í því að taka þátt í einhverju extrím flottu sporti. Kappakstri í öllum heimsálfum, þar sem þú ekur á skrilljón króna bílum, flýgur á milli í sérinnréttaðri boeingþotu. Þú gistir á flottustu hótelum veraldar og skemmtir þér með playboy kanínum í kampavínsveislum. Þú ferðast milli landa í einkaþotunni þinni og berst mikið á. Öll þessi vinna tekur náttúrulega toll og er erfið en er alveg þess virði. Sauðsvartur pöpullinn les um öll ævintýri þín og vill fá, þó ekki sé nema örlitla sneið af kökunni. Enda ert þú duglegur að sína þig og auglýsa hvað það er nú fínt, flott og frábært að vera moldríkur. Þú sýnir líka þínar bestu hliðar og uppskerð aðdáun og traust. Þetta eru nú engin geimvísindi, heldur verður allt að gulli í höndunum á þér. Þú hreinlega framleiðir gull.
Ef allt fer til fjandans þá er það bara allt í lagi. Þú ert búinn að koma þér og þínu vel fyrir. Þá getur þú notið ávaxtanna, slakað á á skíðum, sleikt sólina í Florida. Eða bara gert nákvæmlega það sem þér sýnist.
Svona verður maður ríkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.