Að gefnu tilefni...

Birti ég þetta aftur ... færsla frá síðastliðnu hausti.

--- 

Jú ég hef skriðið nokkuð vel saman.  Kom undan þessum flensuleiðindum töluvert mikið breyttur.  Ég las nefnilega Draumaland Andra Snæs.  Ég verð að viðurkenna að þessi bók kom nokkuð mikið við mig. 

Ég er einn af þeim sem hefur gufast þetta - ekki haft fyrir því að kíkja undir þá steina sem fólk, eins og Andri Snær, hefur velt við fyrir okkur hin til að kanna betur undir. 

Okey.  Bókin kom út í mars sl. Ég eignaðist hana bara fyrst núna (nóvember 2006).  Kristín gaf mér hana.  Draumalandið hefur ekki mikið verið á lausu á bókasöfnum, ekki kunni ég við að stela henni, líkt og einn gagnrýnandi lagði til, og ég bara fattaði ekki að kaupa hana sjálfur.  En betra seint en aldrei.

Ég hef alltaf talið mig vera með báðar fætur á jörðinni.  Viljað nýta og njóta landsins og verið sannfærður um að það sé hægt.  Ég er ekki lengur viss.  Ég held að það sé minnsta kosti ekki hægt, miðað við þá stefnu sem tekin hefur verið, og unnið er eftir.  Sú stefna er alls ekki farsæl.

Það má vel vera að það megi finna einhverjar misfellur eða mismæli í bókinni.  Ég veit það ekki.  Hitt er annað mál, ég held að í henni sé mun meira rétt en rangt.  Það hefur að minnsta kosti ekki neinn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að Draumalandið sé bull frá A-Ö.  Það hefur enginn, eftir því sem ég best veit, stigið fram og sagt að helmingurinn af bókinni Draumalandið sé bull og vitleysa.  Það hafa örugglega einhverjir eldheitir virkjunarsinnar stigið fram og sagt að þetta atriði og þessi lína hér, og þetta hér standis bara ekki, sé bara ekki rétt.  Kann meira að segja að vera að þetta fólk hafi rétt fyrir sér.  En hvað með allt hitt sem kemur fram í bókinni?  Er hægt að tína út spörðinn, vaðandi drullu upp fyrir haus?

Ég hef í tvígang komið upp að Kárahnjúkum.  Ég viðurkenni að mér þótti ekki mikið til koma.  Þótti þetta svæði vera frekar þunnur þrettándi.  En ég hef reyndar bara séð svæðið rétt í kringum stífluna.  Ég hef líka séð háspennulínurnar sem skera landið í Fljóts- og Skriðdalnum.  Það fannst mér vægast sagt hryllingur.  En ég hugsaði með mér, það verður alltaf að færa einhverjar fórnir.  En fyrir hverja?

Ég veit að lítið er hægt að gera úr þessu, eða?   Ég bið Guð um að forða okkur frá því að gera önnur eins mistök aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband